Viðskipti innlent

Nýir aðilar taka við rekstri á Hótel Garði

Rekstaraðilar hótelsins Reykjavík Residence og Gistiheimilisins Domus hafa gert fimm ára samning við Félagsstofnun stúdenta um rekstur sumarhótelsins Hótels Garðs í húsakynnum Gamla Garðs við Hringbraut.

Í tilkynningu segir að á Hótel Garði eru 43 tveggja manna herbergi. Hægt er að velja á milli uppbúinna rúma og svefnpokapláss. Morgunverður fylgir, auk þess sem gjaldfrjáls þráðlaus netaðgangur er í boði.

Fyrstu stúdentarnir fluttu inn á Gamla Garð – sem þá hét raunar Garður – haustið 1934, en stúdentagarðurinn var fyrsta bygging Háskóla Íslands á núverandi háskólasvæði. Stúdentagarðurinn var byggður eftir teikningu Sigurðar Guðmundssonar, húsameistara ríkisins. Auk herbergja fyrir stúdenta voru í húsinu herbergi fyrir garðprófast, lestrarsalur, bókaherbergi og íþróttasalur í kjallara. Með tilkomu Garðs gjörbreyttust aðstæður stúdenta, því ekki aðeins rættist þar úr bágri húsnæðisaðstöðu þeirra heldur höfðu þeir nú fengið góða félagsaðstöðu.

Enn búa stúdentar á Gamla Garði yfir vetrartímann en sumarhótelið er opið frá 1. júní til 24. ágúst.

„Við sem stöndum að rekstri Hótels Garðs sjáum mörg spennandi tækifæri í því að taka við hótelrekstri í þessu húsi sem hefur bæði sögu og sál – og er miðsvæðis í borginni. Við höfum mikla reynslu af rekstri hótela og gistiheimila og viljum byggja upp gott samstarf við ferðaþjónustuna og háskólasamfélagið. Við munum kappkosta að bjóða góða gistingu á hagstæðu verði og láta gestum okkar líða vel," segir Guðbjartur Árnason, sölu- og markaðsstjóri Hótels Garðs í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×