Viðskipti innlent

LSR hefur afskrifað 40,7 milljarða króna frá bankahruni

Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra svaraði fyrirspurn Vigdísar.
Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra svaraði fyrirspurn Vigdísar.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefur fært 40,7 milljarða króna á afskriftarreikning frá bankahruni. Það svarar til 13,3% af meðaleignum sjóðsins á þeim árum sem afskriftir voru færðar í reikning sjóðsins. Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, fyrrum fjármálaráðherra, við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur.

Í svarinu kemur fram að mestur hluti afskriftanna er endanlegur en að hluta er um varúðarniðurfærslur að ræða vegna óvissu um endurheimtur. Um helmingur afskriftanna, 20,3 milljarðar króna, er vegna afskrifta á tapi á skuldabréfum banka, sparisjóða og annarra fjármálastofnana. Skuldabréf urðu annars flokks kröfur við setningu neyðarlaganna þegar innstæður urðu forgangskröfur.

Í svarinu kemur einnig fram að á tímabilinu 2004-2008 hafi starfsmenn sjóðsins alls farið „í 30 ferðir þar sem kostnaður var greiddur af öðrum en lífeyrissjóðnum. Það voru sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn við eignastýringu hjá sjóðnum sem fóru í þessar ferðir, en þær voru í samstarfi við 14 fyrirtæki. Sum þeirra voru með starfsstöðvar í fleiri en einu landi og sum voru heimsótt oftar en einu sinni. Þau lönd sem sótt voru heim voru: England, Bandaríkin, Danmörk, Noregur, Frakkland, Holland, Skotland, Þýskaland, Spánn, Rússland og Tékkland. Stjórnarmenn sjóðsins tóku ekki þátt í þessum ferðum".





Fleiri fréttir

Sjá meira


×