Viðskipti innlent

Smálánafyrirtæki sátt við ný lánalög

Þorgils Jónsson skrifar
Innleiðing Evróputilskipunar um neytendalán skyldar smálánafyrirtæki til að gera greiðslumat á viðskiptavinum. Rekstur fyrirtækjanna gengur vel og þau skila hagnaði. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið stefnir að því að leggja fram til umsagnar drög að frumvarpi um neytendalán í næsta mánuði. Með því verður innleidd Evróputilskipun um neytendalán sem eykur og skýrir réttindi neytenda og lánveitendum verður meðal annars gert að framkvæma greiðslumat áður en samið er um lán.
Smálánafyrirtæki falla undir þessi fyrirhuguðu lög, en starfsemi þeirra hefur verið talsvert umdeild síðustu misseri, en nú eru á markaði hérlendis fyrirtækin Kredia og Hraðpeningar sem lána meðal annars í gegnum sms-skeyti. Afkoma fyrirtækjanna hefur verið ágæt þar sem framkvæmdastjóri Kredia segir reksturinn í jafnvægi og Hraðpeningar högnuðust um fjórtán milljónir árið 2010.

Meðal annars bárust nokkrar umsagnir varðandi frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra í apríl síðastliðnum þar sem Velferðarvakt velferðarráðuneytisins varaði til dæmis við starfsemi smálánafyrirtækja og vildi helst að þau yrðu bönnuð.

Leifur A. Haraldsson, framkvæmdastjóri Kredia, segist þó, í samtali við Markaðinn, fagna því að tilskipunin verði innleidd.

„Við fögnum þessu heils hugar og erum búin að bíða eftir því að þetta verði innleitt hér á landi."

Aðspurður segist Leifur ekki telja að þessi nýja löggjöf muni hafa neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins.

„Við störfum þegar eftir þessum reglum að mestu leyti. Við erum einnig með rekstur í Evrópu [í Tékklandi] þar sem við förum eftir Evrópusambandsreglunum og okkar vinnureglur á Íslandi eru nokkurn veginn alveg eins."

Leifur segir Kredia vinna að því að hefja starfsemi í enn einu landinu og stefni að því að færa sig út til enn fleiri landa næstu tvö ár.

Varðandi afkomu fyrirtækisins segir Leifur að gerð ársreiknings fyrir árið 2010 sé ekki enn að fullu lokið og því liggi rekstrarniðurstaða ekki fyrir.

„En reksturinn í fyrra kom okkur yfir strikið og við erum mjög ánægðir með að vera búnir að ná jafnvægi í reksturinn eftir þessi þrjú ár sem við höfum starfað."

Hitt fyrirtækið á markaðnum, Hraðpeningar, skilaði ársreikningi rétt fyrir áramót og þar kemur fram að hagnaður ársins 2010 var rúmar fjórtán milljónir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×