Viðskipti innlent

Árið í fyrra langstærsta ferðamannaár sögunnar

Nýliðið ár er langstærsta ferðamannaár í sögu landsins en þetta var löngu orðið ljóst, eða þegar tölurnar fyrir október síðastliðinn lágu fyrir. Þannig fóru um 541 þúsund erlendir ferðamenn úr landi um Leifsstöð á síðastliðnu ári samanborið við rúmlega 459 þúsund árið á undan.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í desember síðastliðnum fóru um 21 þúsund erlendir ferðamenn úr landi um Leifsstöð sem er rúmlega 11% fleiri en í desember árið 2010. Líkt og með nóvember síðastliðinn er ekki um metmánuð að ræða líkt og fyrstu tíu mánuði ársins 2011, þar sem erlendir ferðamenn höfðu tvívegis áður verið fleiri í desember, þ.e. árin 2007 og 2008.

„Það kemur þó ekki í veg fyrir það að nýliðið ár er langstærsta ferðamannaár í sögu landsins sem var löngu orðið ljóst, eða þegar tölurnar fyrir október síðastliðinn lágu fyrir. Þannig fóru um 541 þúsund erlendir ferðamenn úr landi um Leifsstöð á síðastliðnu ári samanborið við rúmlega 459 þúsund árið á undan. Jafngildir þetta aukningu upp á tæp 18% milli ára. Þetta má sjá í tölum sem Ferðamálastofa Íslands tekur saman og birtir á heimasíðu sinni, en þær ná yfir allar brottfarir gesta frá landinu um Leifsstöð," segir í Morgunkorninu.

„Fyrir árið 2011 var árið 2008 metár í fjölda erlendra ferðamanna, en á því ári fóru um 473 þúsund erlendir gestir úr landi um Leifsstöð, eða sem nemur um 68 þúsund færri en á síðastliðnu ári.

Ferðamálastofa hóf talningar í Leifsstöð um miðjan febrúar árið 2002 og er því ekki hægt að fara lengra aftur en til ársins 2003 til þess að bera saman þróunina sem orðið hefur í fjölda erlendra ferðamanna.

Á árinu 2003 voru erlendir ferðamenn um 309 þúsund talsins sem fóru um Leifsstöð. Sé fjöldinn á nýliðnu ári borinn saman við árið 2003 nemur aukningin rúmlega 75% á tímabilinu sem jafngildir að þeim hafi fjölgað að meðaltali um 7,3% á hverju ári á síðastliðnum 8 árum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×