Viðskipti innlent

Horfa bjartari augum til framtíðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórnendur fyrirtækja virðast líta ögn bjartari augum til framtíðarinnar en áður var, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Capacent fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann.

Þeim stjórnendum fyrirtækja sem telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar hefur fækkað hlutfallslega síðustu mánuði, samkvæmt könnuninni. Nú telja 67% stjórnenda aðstæður vera slæmar en hlutfallið var 72% í síðustu könnun sem gerð var fyrir tveimur mánuðum síðan. 29% telja að þær séu hvorki góðar né slæmar en 4% að þær séu góðar. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að þungt sé yfir stjórnendum, þar sem fjórir af hverjum fimm telja aðstæður slæmar, og enginn stjórnandi í sjávarútvegi telur aðstæður góðar. Á höfuðborgarsvæðinu telja þrír af hverjum fimm aðstæður vera slæmar en 5% að þær séu góðar. Jákvæðasta matið á núverandi aðstæðum er í ýmsum þjónustugreinum.

Þegar stjórnendur eru spurðir um horfur næstu sex mánuði sést breyting frá fyrri mánuðum. Nú telja 22% stjórnenda að aðstæður batni en þeir voru 17% fyrir tveimur mánuðum, en sem fyrr telja langflestir, eða 61%, að þær breytist ekki. Stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu eru mun bjartsýnni. Þar sjá 26% fram á bata, en á landsbyggðinni sjá 9% fram á bata.

Tæplega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Ætla má af svörum stjórnendanna að starfsmönnum þeirra fækki um 100-200 á næstu sex mánuðum, eða um 0,3-0,7%. Langflestir, eða þrír af hverjum fimm, búast við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 17% áforma fjölgun starfsmanna en 25% búast við fækkun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×