Viðskipti innlent

Jón Ásgeir: Stefnan hluti af áróðursstríði

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson segir nýja stefnu slitastjórnar Glitnis gegn sér og átta fyrrum stjórnarmönnum bankans vera hluta af áróðursstríði. Lánið hafi verið afgreitt með eðlilegum hætti og fjöldi tölvupósta sanni það.

Slitastjórn Glitnis stefnir Lárusi Welding, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og allri fyrrverandi stjórn Glitnis vegna fimmtán milljarða króna víkjandi láns sem veitt var Baugi í árslok 2007 en skaðinn af lánveitingunni er metinn á 6,5 milljarða króna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Slitastjórnin sönnun fyrir því að Jón Ásgeir hafi sjálfur haft aðkomu að lánveitingunni og misnotað aðstöðu sína, en hann var á þessum tíma forstjóri Baugs og stjórnarformaður í FL Group, sem átti stærstan hlut í Glitni.

Jón Ásgeir segir ásakanirnar fráleitar, en hvorki hann né verjandi hans hafa fengið stefnuna í hendur.

„Við vitum að lánið fór í eðlilegan farveg, við eigum tugi tölvupósta sem sanna þau samskipti," segir Jón Ásgeir.

Er ekki auðvelt að falsa svona? „Jú, jú ef þú ert með þannig hugarfar þá getur þú væntanlega gert það."

En eru þetta þá áreiðanleg gögn til að sanna sakleysi ykkar?

„Algjörlega án vafa."

En afhverju heldurðu þá að stjórnin sé svona viss í sinni sök?

„Þessi slitastjórn hefur nú farið af stað með ýmis stór orð og endað úti í skurði eins og Ameríkumálið hefur leitt í ljós. Þetta er PR-leikur þar sem verið er að moka yfir skítinn í Ameríkumálinu. Það er verið að koma með þetta viku seinna eftir að Ameríkumálinu lýkur," segir Jón Ásgeir.

Hvorki Jón Ásgeir né verjandi hans hafa fengið stefnuna í hendur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×