Viðskipti innlent

Jarðboranir selt

SF III slhf., félag í rekstri Stefnis hf., hefur gert samning um kaup á 82% eignarhlut í Jarðborunum hf. af Miðengi ehf., dótturfélagi Íslandsbanka.

Eigendur SF III eru Festa lífeyrissjóður, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Samherji hf. og Stefnir Íslenski Athafnasjóðurinn I. Miðengi ehf. mun áfram fara með 18% eignarhlut í félaginu. Kaupsamningurinn sem nú hefur verið undirritaður er háður skilyrðum um tiltekin atriði, þ.á.m. samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Miðengi ehf. hóf opið söluferli á félaginu í ágúst 2011 sem fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hafði umsjón með. Söluferlið var auglýst í fjölmiðlum og bárust fjölmörg tilboð í félagið frá innlendum jafnt sem erlendum fjárfestum. Í kjölfarið voru teknar upp viðræður við hæstbjóðanda sem lauk með umræddri sölu.

Jarðboranir sérhæfir sig í öflun jarðhita. Áratuga reynsla af borunum eftir jarðhita á Íslandi hefur skapað félaginu mikilvæga reynslu til að bjóða þjónustu sína erlendis. Félagið stendur að borframkvæmdum víða erlendis s.s. í Danmörku, Nýja Sjálandi, Þýskalandi, Karabíska hafinu og á Azoreyjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×