Viðskipti innlent

Metár í fjölda gjaldþrota

Ljóst er að nýtt met verður slegið í fjölda gjaldþrota á árinu 2011, en fyrstu 11 mánuði ársins höfðu 1.426 fyrirtæki lagt upp laupanna. Þar með er fyrra met frá árinu 2010 slegið út, þegar gjaldþrot voru samtals 982 talsins.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að árið 2009 voru gjaldþrotin 910 talsins og voru þá mun fleiri en sést hafði undanfarna áratugi, en á tímabilinu 1990 og fram til 1997 urðu að meðaltali 430 fyrirtæki gjaldþrota á ári hverju.

Þessi mikli fjöldi gjaldþrota á síðasta ári bendir til þess að enn sé atvinnulífið laskað eftir hrun. Þessar tölur eru einnig til vitnis um þá miklu fjárhagslegu endurskipulagningu sem nú á sér stað í atvinnulífinu. Sú endurskipulagning er nú langt á veg komin en frá hruni hafa samtals 3.544 fyrirtæki verið tekin til gjaldþrotaskipta samkvæmt tölum Hagstofunnar, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×