Viðskipti innlent

Málsókn gegn sjömenningum lokið í NY - hugsanlega stefnt á Íslandi

Skilanefnd Glitnis hefur fallið frá stefnu gegn sjömenningunum svokölluðu fyrir dómstólum í New York. Lögmenn skilanefndarinnar skiluðu ekki inn gögnum til áfrýjunarréttar eftir frávísun þess í lok árs 2010 og lauk því málarekstri opinberlega um áramótin.

Dómarinn í New York vísaði máli sjömenninga Jóns Ásgeirs Jóhannessonar frá dómi um miðjan desember 2010 á þeim grundvelli að málið ætti að vera rekið fyrir íslenskum dómstólum.

Dómarinn setti hins vegar frávísuninni tvö skilyrði. Annars vegar að sjömenningarnir gæfu skriflega yfirlýsingu um að þeir myndu ekki mótmæla lögsögu íslenskra dómstóla og hins vegar að þeir myndu ekki grípa til varna í New York ef íslenski dómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að ganga að eigum þeirra í New York.

Sjömenningarnir eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárusar Welding, Hannes Smárason, Pálmi Haraldsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Sigurðsson og Þorsteinn Jónsson. PriceWaterhouseCooper var einnig stefnt í málinu.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður skilanefndar Glitnis, segir í samtali við RÚV að sjömenningunum verði hugsanlega stefnt hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×