Viðskipti innlent

Ofurálag á starfsfólk Framtakssjóðsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Finnbogi Jónsson hefur ákveðið að hætta hjá Framtakssjóðnum.
Finnbogi Jónsson hefur ákveðið að hætta hjá Framtakssjóðnum. mynd/ stefán.
„Þetta er búið að vera ofurálag á síðasta ári og bæði hafa verkefnin verið erfið og fjölmiðlaumræðan framan af ári var erfið," segir Finnbogi Jónsson, en tilkynnt var í dag að hann myndi láta af störfum sem framkvæmdastóri Framtakssjóðs Íslands. Hann segir þó að umræðan hafi gjörbreyst til batnaðar.

Finnbogi segir að umræðan um Framtakssjóðinn hafi verið þannig að fólk hafi ekki verið sammála um að hann ætti tilverurétt. Það hafi skapað pressu á að sjóðurinn næði árangri. „Við höfum náð honum. Ég er ofboðslega ánægður með þennan árangur og mér finnst við þennan tímapunkt rétt að ég minnki mitt umfang," segir Finnbogi.

„Álagið var líka vegna þess að maður er að vinna fyrir 200 þúsund lífeyrissjóðsþega í landinu og maður vill skila árangri. Öll áhöfnin hjá mér hefur lagt mikið á sig og er að skila frábæru starfi og það er það sem skiptir máli," segir Finnbogi.

Finnbogi hefur þó ekki alveg sagt skilið við Framtakssjóðinn því að í fréttatilkynningunni um starfslok hans kom fram að hann myndi sitja áfram í fyrirtækjum sem Framtakssjóðurinn hefur fjárfest í. Finnbogi segist ætla að sitja í stjórn Promens.


Tengdar fréttir

Finnbogi hættur hjá Framtakssjóðnum

Finnbogi Jónsson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands. Hann hefur verið framkvæmdastjóri frá því að sjóðurinn var stofnaður fyrir um tveimur árum. Finnbogi mun taka að sér að sinna ákveðnum stjórnarstörfum fyrir félög sem eru í eigu Framtakssjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×