Viðskipti innlent

Metár hjá Icelandair

Mynd/Valgarður
Árið 2011 var metár hjá Icelandair, sem flutti 1750 þúsund farþega á árinu, eða fimmtungi fleiri en árið áður. Stefnt er að enn frekari fjölgun sæta á þessu ári að sögn framkvæmdastjóra félagsins.

Icelandair Group birti í gærkvöldi flutningatölur fyrir árið 2011. Samkvæmt þeim fjölgaði farþegum um rúm 260 þúsund á síðasta ári, eða 18 prósent, en alls voru farþegarnir 1750 þúsund. Sætanýtingin var tæp 80 prósent, en hún jókst jafnframt um tæpt eitt prósentustig. Félagið hefur aldrei áður flutt jafnmarga farþega eða haft jafngóða sætanýtingu.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri félagsins, segir forsvarsmenn þess afar ánægða með flutningatölurnar. Þær séu í takt við tæplega fimmtungsaukningu á sætaframboði félagsins á síðasta ári, en það hefur neytt færis nú þegar krónan er veik og samkeppnisstaðan góð.

„Það er í raun aukning á öllum mörkuðum hjá okkur; til Íslands, frá Íslandi og yfir hafið," segir Birkir. „Þeir markaðir sem eru stærstir til Íslands hafa kannski aukist mest; meginland Evrópu og Bandaríkin auðvitað, með auknu framboði."

Birkir segir að félagið sé að vinna að því að þétta tíðnina í leiðakerfi félagsins, og það skapi fleiri farþega til og frá landinu. Á árinu 2012 verður sætaframboðið enn aukið um 14 prósent, og tveimur vélum bætt við flota Icelandair. Þá hafi Denver í Bandaríkjunum bæst við sem áfangastaður og hann sé að bókast vel. Markmiðið sé síðan að auka ferðamannastrauminn til landsins utan sumartímans, eins og fjallað var um í fréttum Stöðvar 2 í gær.

„Við höfum fulla trú á því að það sé hægt að byggja upp meiri ferðamannastraum yfir vetrartímann og hlutfallslega erum við að auka mest framboð okkar á þessu tímabili. Við erum bjartsýn á að við náum því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×