Viðskipti innlent

Óráðlegt að lækka eigiðfé bankanna

Tryggvi Þór Herbertsson
Tryggvi Þór Herbertsson
Tryggi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur ekki gáfulegt að stjórnvöld sæki fjármagn í bankakerfið með því að lækka eigiðfjárhlutfall bankanna eins og stendur.

Guðmundur Steingrímsson hvatti til þess í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun að stjórnvöld athuguðu þann möguleika að lækka eigiðfjárhlutfall bankanna sem nú er um 22,5% niður í 16%. Þannig mætti sækja fjármagn til að hraða uppbyggingu í landinu, enda á ríkið um 40% í bönkunum.

„Núna er það þannig að bönkunum er bannað að borga út arð," segir Tryggvi. Ef því yrði breytt til þess að ríkið gæti sótt peninga til uppbyggingar yrði einnig um leið heimilt að borga kröfuhöfum arð. Það myndi óhjákvæmilega þýða að 60% af eiginfénu sem hefur verið byggt upp í bönkunum myndi hafna hjá kröfuhöfum en 40% hjá ríkinu.

„Ég held að það sé svona mun gáfulegra að byggja upp eigiðféð og ákveða hvað á að gera við þetta bankakerfi áður en við önum í einhverjar svona hugmyndir," segir Tryggvi.


Tengdar fréttir

Vill sækja peninga í bankakerfið

Guðmundur Steingrímsson telur tímabært að ráðast í miklu meiri fjárfestingar og uppbyggingu núna. Hann segir að peningar til að hrinda því í framkvæmd séu að öllum líkindum til. Ríkið á um þessar mundir 41% af bankakerfinu. Bankakerfið núna er með eiginfjárhlutfall upp á um 22,5% að meðaltali núna. Fjármálaeftirlitið segir eðlilegt viðmið um 16%. Ef við myndum færa eiginfjárhlutfallið niður í 16% myndi ríkið fá í sinn hlut 70 milljarða í arðgreiðslur. Guðmundur telur áleitna spurningu hvort hægt sé að sækja hluta af þessum peningum til að ná niður atvinnuleysi og koma okkur áleiðis upp úr kreppunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×