Handbolti

Alfreð: Meistaradeildin mikilvægari en þýska úrvalsdeildin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Köln skrifar
Alfreð Gíslason sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrir úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í morgun. Lið hans, Kiel, mætir Füchse Berlin í undanúrslitum keppninnar klukkan 13.15 á morgun.

Kiel hefur unnið allar þrjár viðureignir sínar gegn Kiel í vetur en Alfreð ætlar samt ekki að vanmeta andstæðinginn.

„Við höfum þótt sigurstranglegri aðilinn í hverjum einasta leik okkar í vetur og erum við því vanir þessum hlutskiptum," sagði Alfreð en Kiel hefur unnið alla deildarleiki sína í Þýskalandi til þessa.

„Það er allt of snemmt að tala um titilinn. Við eigum fyrst erfiðan leik í undanúrslitum fyrir höndum. Það er sérstök reynsla að taka þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar og teljum við að það sé mikilvægara fyrir okkur að vinna Meistaradeildina en þýsku úrvalsdeildina."

„Þetta mót er stærra en Ólympíuleikarnir og þetta verður hápunktur tímabilsins fyrir okkur. Við viljum vinna titilinn og höfum unnið að því allt tímabilið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×