Handbolti

Einar: Óvíst hvort ég spila handbolta aftur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Atvinnumannsferill Einars Hólmgeirssonar hefur verið ein sorgarsaga síðustu ár. Nú er komið að endalokum og Einar flytur heim í sumar ásamt fjölskyldu sinni.nordic photos/bongarts
Atvinnumannsferill Einars Hólmgeirssonar hefur verið ein sorgarsaga síðustu ár. Nú er komið að endalokum og Einar flytur heim í sumar ásamt fjölskyldu sinni.nordic photos/bongarts
"Þetta eru líklega endalokin. Ég er búinn að hitta lækni og hann er ekki bjartsýnn á framtíðina. Þetta er búið að vera mjög erfitt," sagði Einar Hólmgeirsson, leikmaður Ahlen-Hamm, sem hefur leikið sinn síðasta leik sem atvinnumaður. Tíminn mun svo leiða í ljós hvort hann spilar aftur handbolta síðar en svo gæti farið að hann verði að leggja skóna á hilluna.

Einar er meiddur á vinstra hné og fer í aðgerð fljótlega vegna meiðslanna. Það mun taka hann nokkra mánuði að jafna sig eftir aðgerðina í kjölfarið mun koma í ljós hvort hann geti spilað handbolta á nýjan leik.

Samningur Einars við Ahlen-Hamm rennur út í sumar og hann fær ekki nýjan samning. Engin eftirspurn er síðan eftir meiddum manni þannig að Einar á um lítið annað að velja en koma heim.

"Ég hef það orð á mér að vera mikið meiddur og þess vegna er áhuginn enginn. Ég fór í aðgerð á þessu hné fyrir tveim árum vegna brjóskskemmda. Það hefur haldið vel síðan en er illa farið núna. Það þarf að taka það í gegn enda er skemmdin stór og á vondum stað. Læknirinn segir mjög ólíklegt að ég verði atvinnumaður á nýjan leik. Ég veit ekki hvort ég spila handbolta á nýjan leik. Spurning hvort það sé þess virði. Ég er ekkert spenntur fyrir því að vera kominn með gervilið á mínum aldri," sagði Einar sem er aðeins 29 ára.

"Það er ekkert annað hægt að gera núna en að byrja upp á nýtt. Ég kem væntanlega heim í sumar og fer í endurhæfingu. Ég verð samt örugglega aldrei tilbúin aftur fyrr en um jólin," sagði Einar sem þarf nú að standa í stappi vegna tryggingamála en hann vonast eftir því að tryggingarnar muni greiða fyrir endurhæfinguna.

Að sama skapi getur hann ekki spilað handbolta á meðan og því engar líkur á því að hann spili hér heima á meðan á endurhæfingu stendur.

Þegar Einar fór utan sem atvinnumaður átti hann bjarta framtíð í vændum. Hann spilaði vel og var orðinn lykilmaður í íslenska landsliðinu. Síðustu ár hafa aftur á móti verið ein samfelld sorgarsaga þar sem hver meiðslin hafa rekið önnur.

"Ég er búinn að vera meiddur út í eitt eftir jól. Sex eða sjö mismunandi meiðsli. Það var orðið mjög þreytandi að vera ónýtur og geta síðan ekki neitt. Fyrstu tvö árin mín í Þýskalandi gengu vel en síðan fór að halla undan fæti. Þessir síðustu mánuðir hafa svo verið skelfilegir. Ég þarf samt að játa mig sigraðan núna," sagði Einar sem var að gæla við að geta spilað í Þýskalandi í tvö ár í viðbót.

"Ég á sem betur fer heilbrigð börn og góða fjölskyldu. Við höfum átt mjög góðan tíma úti og maður verður að taka það með sér. Það er erfitt að sætta sig við þetta og ég er enn að átta mig á þessu. Ég held ég geri það ekki fyrr en eftir nokkra daga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×