Handbolti

Frakkar heimsmeistarar í fjórða sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thierry Omeyer, Jerome Fernandez og Nikola Karabatic áttu stóran þátt í sigri Frakka í dag. Hér fagna þeir eftir leikinn.
Thierry Omeyer, Jerome Fernandez og Nikola Karabatic áttu stóran þátt í sigri Frakka í dag. Hér fagna þeir eftir leikinn. Nordic Photos / AFP

Frakkland varð í dag heimsmeistari í handbolta eftir sigur á Dönum, 37-35, í framlengdum úrslitaleik í Malmö.

Leikurinn var æsispennandi og þá sérstaklega síðustu tíu mínútur leiksins og framlengingin.

Frakkar voru með frumkvæðið lengst af og voru með þriggja marka forystu í hálfleik, 15-12.

Markaskorun dreifðist mikið á leikmenn franska liðsins en Mikkel Hansen var aðalmaðurinn í dönsku sókninni.

En Danir spiluðu betri sóknarleik í síðari hálfleik og komu í veg fyrir að Frakkar næðu að stinga af. Þvert á móti náðu þeir að jafna leikinn þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka og hleyptu mikilli spennu í leikinn.

Nikola Karabatic fór einnig mikinn og sá til þess að Frakkar væru enn skrefinu framar. Hann skoraði 31. mark Frakka þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum og Danir héldu í sókn.

Mikkel Hansen hafði verið tekinn úr umferð lengi vel í seinni hálfleik og danska sóknin var við það að renna í sandinn þegar að leikstjórnandinn Bo Spellerberg stökk upp og skoraði jöfnunarmark Dana.

Danir komust einu sinni yfir í framlengingunni og þá ætlaði allt um koll að keyra í Malmö Arena. En hlutirnir féllu með Frökkum á síðustu mínútunum.

Danir köstuðu einu sinni boltanum frá sér og Omeyer, sem hafði ekki átt sinn besta leik, varði frá Hansen í síðustu sókn Dana.

Michael Guigou náði að brjóta sér leið í gegnum dönsku vörnina á lokasekúndunum og tryggja sínum mönnum tveggja marka sigur og þar með heimsmeistaratitilinn.

Nikola Karabatic átti stórleik og sannaði enn og aftur að hann er besti  handboltamaður heims. Luc Abalo átti einnig frábæran leik í hægra horninu sem og fleiri - Guigou, Fernandez og Gille. Allir sýndu magnaða takta.

En Danir geta einnig vel við unað enda hefur ekkert lið komist jafn nálægt því að ógna einokun Frakka síðustu ár. Hansen átti stórleik þegar og Niklas Landin átti hreint frábæran síðari hálfleik og framlengingu.

Fleiri stóðu sig vel hjá Dönum en það var samt ekki nóg. Hið ógnarsterka lið Frakka stóð uppi sem sigurvegari á stórmóti í fjórða sinn í röð og vann sinn fjórða heimsmeistararatitil. Liðið er það fyrsta síðan 1974 sem tekst að verja titilinn á HM.

Danir eru hins vegar með ungt og skemmtilegt lið og munu sjálfsagt fá annað tækifæri til að hrifsa af þeim titil á næstu árum.

Leiknum var lýst beint á Boltavaktinni. Þar má einnig finna tölfræði leiksins: Frakkland - Danmörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×