Handbolti

Arnór með fjórtán mörk í eins marks sigri Bittenfeld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. Mynd/Arnþór
Arnór Þór Gunnarsson fór á kostum og skoraði fjórtán mörk í eins marks útisigri TV Bittenfeld á HSG Düsseldorf í þýsku b-deildinni í gær en íslensku mörkin í leiknum voru alls 19 talsins því Árni Þór Sigtryggsson bætti við fimm mörkum.

Arnór skoraði sex af mörkum sínum á 16 mínútna kafla þegar Bittenfeld breytti stöðunni úr 5-5 í 16-10 en liðið lifði síðan á þeim kafla út leikinn. Árni Þór skoraði skoraði þrjú marka sinna á þessum kafla og voru því 9 af 11 mörkum Bittenfeld á þessum frábæra kafla skoruð af íslenskum leikmönnum.

Þetta er það mesta sem Arnór hefur skorað í einum leik á tímabilinu en hann hafði skorað ellefu mörk í tveimur leikjum og tíu mörk í einum leik. Arnór hefur alls skorað 148 mörk í 26 leikjum eða 5,7 mörk að meðaltali í leik.

TV Bittenfeld er í fimmta sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Düsseldorf sem er í 3. sætinu. Tvö efstu sætin gefa sæti í úrslitakeppninni en Arnór og félagar eru sjö stigum frá því þegar átta umferðir eru eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×