Viðskipti innlent

Landsframleiðslan jókst um 2% milli ársfjórðunga

Landsframleiðsla jókst um 2,0% að raungildi milli 4. ársfjórðungs 2010 og 1. ársfjórðungs 2011. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 5,1%, sem skýrist að mestu af mikilli aukningu birgða.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að einkaneyslan dróst saman um 1,6% og fjárfestingin um 6,8%. Samneysla jókst hins vegar um 0,1%.

Útflutningur dróst saman um 8,2% og innflutningur um 4,1% á sama tímabili. Þessar tölur eru árstíðaleiðréttar og miðast við vöxt milli ársfjórðunga, ekki ára.

Landsframleiðsla á 1. ársfjórðungi 2011, án árstíðaleiðréttingar, jókst um 3,4% frá sama ársfjórðungi fyrra árs.

Einkaneysla dróst saman um 1,6% frá 4. ársfjórðungi 2010 til 1. ársfjórðungs 2011. Sé miðað við sama ársfjórðung árið áður jókst hún um 1,5%.

Samneysla jókst lítillega eða um 0,1% frá 4. ársfjórðungi 2010 til 1. Ársfjórðungs 2011. Frá sama fjórðungi árið áður er samdráttur um 0,7%.

Fjárfesting dróst saman um 6,8% á 1. ársfjórðungi 2011 samanborið við ársfjórðunginn á undan. Fjárfesting atvinnuvega dróst saman um 3,3%, fjárfesting hins opinbera um 20,9% og íbúðafjárfesting um 4,7% á sama tímabili. Miðað við sama fjórðung árið 2010 kemur aftur á móti fram 13,3% vöxtur í fjárfestingu á 1. ársfjórðungi.

Birgðaskýrslur Hagstofunnar sýna að á 1. ársfjórðungi 2011 hafa birgðir aukist um 21,3 milljarða á verðlagi ársins og munar þar mestu um mikla aukningu í birgðum sjávarafurða en birgðir hjá stóriðju aukast einnig. Mikil aukning í birgðum sjávarafurða skýrist af miklum loðnuafla á 1. ársfjórðungi 2011.

Mikil aukning birgða er helsta ástæða þess að þjóðarútgjöld jukust um 5,1% á 1. ársfjórðungi borið saman við 4. ársfjórðung. Þjóðarútgjöld jukust um 5,5% miðað við samsvarandi tímabil árið áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×