Viðskipti innlent

Magnús Ármann ekki lengur til rannsóknar

Magnús Ármann.
Magnús Ármann.
Sérstakur saksóknari hefur hætt rannsókn á þætti fjárfestisins Magnúsar Ármann í svokölluðu Ímon-máli. Magnúsi barst bréf þess efnis frá saksóknaranum 9. febrúar. Þetta kemur fram í grein sem Magnús skrifar í Fréttablaðið og á Vísi í dag.

Magnús er eigandi Ímons, sem keypti fjögurra prósenta hlut í Landsbankanum á fimm milljarða nokkrum dögum fyrir hrun. Þessi viðskipti hafa verið til rannsóknar síðan haustið 2008.

„Ég hef þurft að sæta því í meira en tvö ár að vera dæmdur sekur af dómstóli götunnar og stimplaður glæpamaður í fjölmiðlum vegna Ímon-málsins. Mannorð mitt, og reyndar allrar fjölskyldu minnar, hefur beðið mikinn hnekki," segir Magnús og kveðst ekki hafður fyrir sök í neinu öðru máli. Í hnotskurn segist hann hafa verið tjónþoli í Ímon-málinu, ekki brotamaður.

Magnús segir lögmann sinn ítrekað hafa reynt að fá réttarstöðu hans breytt úr sakborningi í vitni en án árangurs. Hann gagnrýni þó ekki seinagang saksóknara og segist skilja mikinn áhuga fjölmiðla á málinu þótt umfjöllunin hafi oft farið yfir strikið. - sh


Tengdar fréttir

217 sinnum sekur?

Í meira en tvö ár hafa kaup félags í minni eigu, Ímon ehf., á hlutabréfum í Landsbankanum rétt fyrir hrun verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Málið hefur verið kennt við Ímon og tekið sem dæmi um sýndarviðskipti og markaðsmisnotkun.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×