Handbolti

Guðmundur: Verðum vonandi með réttu svörin

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar
Guðmundur Guðmundsson lætur hér í sér heyra á hliðarlínunni gegn Brasilíu.
Guðmundur Guðmundsson lætur hér í sér heyra á hliðarlínunni gegn Brasilíu. Mynd/Valli
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari fagnar því að hafa fengið heilan aukadag til þess að undirbúa lið sitt fyrir leikinn gegn Japan í kvöld. Japanar hafa komið skemmtilega á óvart á HM og hreinlega pökkuðu Austurríki saman á laugardag. Það gerir ekki hvaða lið sem er.

Leikurinn í kvöld verður því alls ekki auðveldur fyrir íslenska liðið rétt eins og margir bjuggust við fyrir mót.

„Greiningardeild landsliðsins var að í nánast alla nótt eftir Brasilíu-leikinn að störfum enda þarf að undirbúa sig vel fyrir þennan slag. Við erum búnir að greina báða leiki Japana á mótinu og héldum fund í morgun [í gær] þar sem við skoðuðum bæði varnar- og sóknarleik liðsins. Við vonumst því til að mæta með réttu hernaðaráætlunina í leikinn," segir Guðmundur en það ber margt að varast í leik Japana.

„Við þurfum að vera klárir í framliggjandi vörn þeirra. Það þarf að leysa með hlaupum úr hornum og öðru. Í vörninni má svo ekki falla í þá gryfju að falla of aftarlega gegn þeim. Austurríkismenn reyndu og skaðbrenndu sig á því."

Japan er að mörgu leyti óheðfbundið handboltalið sem Ísland fær ekki oft tækifæri til þess að mæta. Guðmundur segir að það sé því meiri undirbúningur fyrir slíkan leik en oft áður.







Gott að fá aukadag í undirbúning
Ólafur Stefánsson sat í áhorfendastúkunni gegn Brasilíu. Finnur Jóhannsson fyrrum liðsfélagi Ólafs hjá Val er til hægri við Ólaf. Mynd/Valli
„Ég er þess vegna mjög feginn að fá aukadag í undirbúning. Fyrir utan myndbandsfundi munum við taka æfingu í einn og hálfan tíma. Þar munum við útfæra okkar leik gegn þeim. Við þurfum að æfa okkur gegn óhefbundinni vörn og það eru bara ekki margir leikir á ári þar sem við mætum svona varnarleik," segir Guðmundur.

Íslenska landsliðinu hefur oft gengið illa gegn sterkum Asíuþjóðum og Guðmundur var sjálfur í landsliðinu árið 1986 er Suður-Kórea valtaði yfir íslenska liðið og íslenska liðið vissi vart hvaðan á sig stóð veðrið í þeim leik.

Suður-Kórea lagði Ísland síðan af velli á Ólympíuleikunum í Peking og var það eini tapleikur liðsins þar fyrir utan úrslitaleikinn. Japan er að mörgu leyti sambærilegt lið og Guðmundur tekur andstæðinginn mjög alvarlega.

„Við erum fullmeðvitaðir um hversu strembið þetta verkefni er og höfum reynt að læra af fyrri leikjum. Undirbúningurinn verður eins góður og mögulegt er og ég vona svo innilega að við mætum til leiks með réttu svörin," sagði Guðmundur en hversu bjartsýnn er hann á að Ólafur Stefánsson spili leikinn en Ólafur glímir við hnémeiðsli eins og alþjóð ætti að vera kunnugt um.

„Staðan á Ólafi er tiltölulega góð og við erum nokkuð bjartsýnir. Hann mun taka æfingu í dag [í gær] með okkur og svo sjáum við til hvernig hann verður. Þetta er allt á réttri leið og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn hvað hann varðar."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×