Handbolti

Guðjón Valur: Finnur að ballið er að byrja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland hefur leik á HM í Svíþjóð í dag eftir stuttan undirbúning hjá íslenska landsliðinu. Ísland mætir Ungverjalandi klukkan 16.00 í dag.

„Maður finnur að ballið er að byrja. Það er gaman að þessu," sagði Guðjón Valur í samtali við Hörð Magnússon sem er staddur í Linköping í Svíþjóð.

Íslenska liðið æfði í gær í síðasta sinn fyrir leikinn í dag. „Þetta er búið að ganga ágætlega en hefur verið aðeins rólegra hjá okkur síðustu tvo dagana. Við höfum verið að fara yfir taktík Ungverjanna og hvernig við ætlum að bregðast við henni," sagði hann.

„Auðvitað hefði maður viljað fá lengri undirbúning en þetta er þó ekkert sem hefur slæm áhrif á okkur. Það eru öll lið sem sitja við sama borð."

„Reyndar fóru deildirnar í Króatíu og á Spáni í frí þann 20. desember og þá byrjuðu leikmenn þar strax að æfa með sínum landsliðum. Við gátum ekki leyft okkur það þar sem við spilum flestir erlendis."

Hann segir að upplifun sín nú sé öðruvísi en oft áður. „Hún er öðruvísi að því leyti að maður veit að hverju maður er að ganga. Undanfarin 2-3 ár hefur landsliðið verið að þróa sinn leik mikið og það hefur verið gaman og gefandi að fá að taka þátt í því."

„Handboltinn er samt eins sama hvar hann er spilaður. En heimsmeistarkeppnin er sérstök, einkum þegar maður er í góðu liði sem á góðum degi getur unnið alla en tapað fyrir flestum á slæmum degi. Þá verður þetta enn meira spennandi þó svo að við vitum að þetta verði mjög erfitt enda margir leikir á fáum dögum."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×