Viðskipti innlent

FME gagnrýnir Kauphöllina

Páll Harðarson segir að athugun Fjármálaeftirlitsins hafi verið mjög gagnleg fyrir alla aðila og að Kauphöllin taki athugasemdir eftirlitsins alvarlega.  fréttablaðið/GVA
Páll Harðarson segir að athugun Fjármálaeftirlitsins hafi verið mjög gagnleg fyrir alla aðila og að Kauphöllin taki athugasemdir eftirlitsins alvarlega. fréttablaðið/GVA
Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert athugasemd þess efnis að Kauphöll Íslands hafi ekki tekið nógu snemma eftir viðskiptum tiltekinna fjármálafyrirtækja með eigin hlutabréf á árinu 2008. Ekki er tiltekið hvaða fjármálafyrirtæki er um að ræða. Þetta kemur fram í niðurstöðu athugunar FME á rafrænu eftirliti Kauphallarinnar sem birt var á vef eftirlitsins í fyrradag.

Viðskipti Kaupþings, Landsbankans og Glitnis með eigin hlutabréf fyrir hrun eru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Meðal annars leikur grunur á að þau hafi falið í sér skipulega markaðsmisnotkun.

FME „gerir athugasemd við ákveðna þætti í eftirliti Kauphallarinnar á árinu 2008. Fjármálaeftirlitið telur til dæmis að þegar horft er yfir langt tímabil og með hliðsjón af miklum söluþrýstingi þá hefðu viðskipti tiltekinna fjármálafyrirtækja með eigin hlutabréf átt að vekja athygli Kauphallarinnar fyrr en raunin varð“.

FME telur þó ekki að hægt sé að fullyrða að Kauphöllin hafi brotið gegn lögum um kauphallir. Vert er að taka fram að meginábyrgð á eftirliti með verðbréfaviðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði liggur hjá FME, ekki Kauphöllinni. Henni hafa þó verið falin „tiltekin eftirlitsverkefni“.

Í skjalinu segir að til standi að skipa vinnuhóp um hvernig megi bæta eftirlit með viðskiptum á verðbréfamarkaði og hvernig verkaskiptingu milli Kauphallarinnar og FME verði best háttað til frambúðar. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×