Handbolti

Norsku tvíburasysturnar mikilvægar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristine Lunde-Borgersen átti strák fyrir tíu mánuðum.
Kristine Lunde-Borgersen átti strák fyrir tíu mánuðum.
Norsku tvíburasysturnar Kristine Lunde-Borgersen og Katrine Lunde Haraldsen voru lykilmenn í árangri norska kvennalandsliðsins á heimsmeistaramótinu í handbolta í Brasilíu. Kristine skoraði 6 mörk í úrslitaleiknum gegn Frökkum og gaf 5 stoðsendingar á meðan markvörðurinn Katrine lokaði nánast markinu með frábærri markvörslu.

Heimsmeistaratitill var það eina sem þær systur áttu eftir að upplifa sem leikmenn, en þær hafa báðar fagnað sigri í Meistaradeild Evrópu með félagsliði, auk Evrópu- og Ólympíugullverðlauna með landsliðinu.

Kristine vakti athygli á verðlaunaafhendingunni að hún mætti þar með 10 mánaða gamlan son sinn, Matheo. Kristine var með eiginmann sinn og soninn með í för allt mótið – og ekki nóg með það, móðir þeirra systra var einnig í stuðningsliðinu. Pabbinn, Ånund Lunde, var hins vegar eftir í Noregi.

Þórir Hergeirsson segir það hafa verið mjög mikilvægt að fá Kristine inn í liðið. „Hún átti barn í febrúar og hefur verið í spesprógrammi síðan. Við lögðum mikla áherslu á að hún væri með af því að Gro Hammerseng og Tonje Larsen voru ekki með. Ég myndi segja að hún væri Ólafur Stefánsson okkar Norðmanna í kvennaboltanum. Hún skapar mikið spil, les leikinn vel og er mjög mikill haus. Hún er mjög mikill heili í öllu sem hún gerir. Hún er mikilvægur leikmaður fyrir okkur," segir Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×