Bakþankar

Organdi blaðabossar

Stök bleyja, svífandi út af fyrir sig á sporbaug um jörðu, þvælist alltaf fyrir vitum mér þegar geimfara ber á góma. Júrí Gagarín sem fór fyrstur út í geiminn, Neil Armstrong, sem steig fyrstur á tunglið og risableyjan sem geimfarinn Lisa Nowak setti á sig fyrir 1.600 kílómetra leið frá Texas til Flórída (til að þurfa ekki að stoppa til að fara á klósettið) drakk í sig hugmynd mína um geimfara. Tilgangur þeirrar ferðar var að ræna keppinaut sínum í ástarmálum og var hún dæmd fyrir tilraun til mannráns. Ég hef aldrei getað horft á geimfara eftir þá uppákomu án þess að spá í því hvort hann sé búinn að gera í bleyjuna sína.

Mér varð hugsað til Nowak þegar frétt þess efnis birtist að leikskólakennarar og Félag stjórnenda á leikskólum teldu þörf á að grípa til aðgerða til að draga úr hávaða á leikskólum, sem er víða yfir hættumörkum. Hvernig væri það ef vinnustaðurinn breyttist skyndilega í leikskóla og hingað kæmu starfsmenn keyrandi í vinnuna með bleyju á bossanum og hæfu daginn á því að syngja jólalög í autotune þegar sest væri við skrifborðið. Það yrði eflaust fjör en fjör til lengdar getur líka reynt á, sem og margt annað sem fylgir leikskólastarfinu.

Þannig yrði það óhjákvæmilega partur af dagsverkinu að klæða fólkið áður en það færi út í reyk. Setja trefil á Kjartan og standa svo í miðjunni að gefa eld. Stoppa áflog blaðamanna sem væru að slást um skúbb og hver ætti að taka til í kringum kaffivélina, rúllandi um gólfið í slag. Auðvitað þyrfti að þrífa alla vel eftir mat og jafnvel spúla suma sem gleyma að fara í sturtu. Enda andans menn sem skrifa um djúpvitra hluti og hugsa lítið um útlitið. Þegar allt væri síðan komið á suðupunkt og rifrildin komin yfir á Facebook yrði eina leiðin að slökkva á ráternum í stjórnstöðvunum. Eftir langan dag sæti maður með þrjá grátandi blaðamenn í fanginu sem fengu fréttirnar sínar ekki á forsíðuna.

Hávaðafréttin rifjaði upp fyrir mér annað mál sem kom upp fyrir nokkrum vikum. Var það eitthvert stórmál að borga leikskólakennurum aukaálagið fyrir að aðstoða börnin okkar meðan þeir reyna sjálfir að matast? Ef minn hálftíma matartími færi í það að ganga á milli með tómatsósubrúsann og setja smekkinn á fréttastjórann kæmi mér til hugar að setja bara á mig bleyjuna og skjóta mér út um gluggann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×