Fastir pennar

Þrýstikannað

Pawel Bartoszek skrifar
Fólki finnst oft forvitnilegt að vita hvað öðrum finnst. Margir taka meira að segja afstöðu í málum út frá því hvað þeir halda að öðrum finnist. Það vill enginn kjósa flokk sem enginn kýs, og fáir vilja panta mat sem fáir panta. Menn leita í hjörðina.

Ein leið til að mæla hvað öðrum finnst er með skoðanakönnunum. Í samfélagi þar sem „öðrum finnst“ rökin vega þungt geta menn haft hag af því að niðurstöður skoðanakannana verði á tiltekinn veg. Þar með er kominn hvati til að þrýsta tölunum í „rétta“ átt.

Sé könnunin beinlínis framkvæmd og matreidd af aðila sem hún varðar ætti að taka niðurstöðum hennar með miklum fyrirvara. Dæmi um slíkar niðurstöður eru „94% nemenda í skóla X segjast ánægð með námið“. Þegar við sjáum slíkt eigum við í það minnsta að spyrja um gögn aftur í tímann og biðja um niðurstöður allra spurninganna sem spurðar voru. Annars er líklegt að menn spyrji fullt en segi bara frá þegar hentar.

Svört börn í lausaleikTrúverðugra er þegar einhver annar aðili framkvæmir könnunina en einnig þá skapast vandamál ef verkkaupinn ræður spurningunum og matreiðslu niðurstaðna. Eitt dæmi: Fyrir um einu og hálfu ári létu Bændasamtökin spyrja spurninga eins og hvort menn teldu að það „skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar“ og spurðu svo um afstöðu til ESB aðildar.

Annað dæmi: Árið 2000 voru bandarískir kjósendur spurðir hvort þeir væru líklegri til að kjósa John McCain eða ekki ef þeir vissu að hann ætti svart barn í lausaleik. Slíkar kannanir kallast á ensku „push poll“ eða „þrýstikannanir“. Markmiðið með þeim er tvíþætt, annars vegar að þrýsta tölunum í rétta átt og hins vegar að planta rökum hjá þeim sem hringt er í.

Falskir, leiðandi valkostirSumir hafa gagnrýnt kannanir þar sem spurt er hvort menn vilji slíta aðildarviðræðum við ESB eða „ljúka þeim og kjósa um samninginn“. Sú gagnrýni er ekki óréttmæt. Það virðist almennt ekki erfitt að ýta upp vinsældum valkosta með því að tengja þá þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er í sjálfu sér forvitnilegt, en teldu allir það virkilega næg rök með einhverju þjóðaratkvæði að 50% svarenda í skoðanakönnun vildu að það færi fram þá værum við síkjósandi.

Einn þeirra aðila sem (réttilega) gagnrýnt hafa umræddar ESB-aðildarviðræðukannanir er vefritið Andríki. Þeir hafa sjálfir spurt um ýmislegt. Fyrr á árinu lét vefritið fyrirtækið MRR spyrja eftirfarandi spurningar fyrir sig í tengslum við afgreiðslu þingsins á ICESAVE III: „Telur þú eðlilegt að íslenska þjóðin fái að segja álit sitt á nýjasta Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu?“ Fullkomlega hlutlaus spurning? Hverjum finnst „óeðlilegt“ að heil „þjóð,“ „segi álit sitt“.

Önnur spurning frá sama vefriti: „Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis frá því í maí síðastliðnum kemur fram að gert er ráð fyrir, að beinn kostnaður vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu geti numið samtals 990 milljónum króna á tímabilinu 2009-2012. Hversu vel eða illa telur þú að þeim fjármunum sé varið?“ Varla hlutlaus spurning heldur. Frá félagsfræðilegu sjónarhorni er það vissulega forvitnilegt að sjá hvaða áhrif það hefur á svör fólks í könnunum ef nokkur rök með öðrum málstaðnum fylgja með. Er markmiðið hér að mæla rétt ástand? Varla. Sumar kannanir sem eru gerðar ýkja upp fylgi og breiða út boðskap. Það má taka mark á þeim í samræmi við þau markmið.

Ljótu gögnin falinLoks er vert á minnast á einn punkt. Jafnvel þegar framkvæmdaraðilinn er óháður og spurningin sæmilega hlutlaus þá getur verkkaupinn samt valið um að birta ekki niðurstöður þeirra kannana sem honum eru óhagstæðar. Með því að gera nokkrar kannanir og birta aðeins þær bestu má hæglega falsa heildarmyndina.

Hér er því gátlisti fyrir fréttamenn næst þegar einhverjir aðilar birta könnun um málefni sem stendur þeim nærri hjarta: „Hvaða skoðanakannanir hafið þið látið framkvæma á undanförnum árum? Hafa fullar niðurstöður þeirra allra verið birtar opinberlega? Hef ég heimild til að staðfesta svar ykkar með því að leita til allra þeirra fyrirtækja hérlendis sem framkvæma slíkar kannanir?“






×