Viðskipti innlent

Krefjast rannsóknar hjá Vinnslustöðinni

Deilur hafa verið í stjórn Vinnslustöðvarinnar undanfarin ár. Eigendur minnihluta hlutafjár vilja að meirihlutinn kaupi þá út, en ekki hefur náðst samkomulag um verð.
Deilur hafa verið í stjórn Vinnslustöðvarinnar undanfarin ár. Eigendur minnihluta hlutafjár vilja að meirihlutinn kaupi þá út, en ekki hefur náðst samkomulag um verð. Fréttablaðið/Hari
SjávarútvegurEigendur þriðjungshlutar í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum hafa krafist þess að farið verði í ítarlega rannsókn á starfsemi fyrirtækisins og að höfðað verði skaðabótamál gegn framkvæmdastjóra og stjórnarmönnum.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir þetta

birtingarmynd þeirra deilna sem verið hafi við þessa hluthafa undanfarin ár.

Á aðalfundi félagsins lögðu fulltrúar Stillu útgerðar fram tillögur um úttekt á fyrirtækinu. Að baki Stillu standa bræðurnir Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir, kenndir við útgerðarfélagið Brim. Þeir eiga tæpan þriðjung í Vinnslustöðinni.

Meðal þess sem fulltrúar Stillu vildu að yrði rannsakað var fyrirkomulag á afurðasölu, umboðslaun, flutningskostnaður, afleiðusamningar, vaxtaskipta- og gjaldmiðlasamningar. Fulltrúar meirihlutans höfnuðu alfarið tillögum um slíka rannsókn á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar.

„Þarna er verið að búa til einhverjar fréttir um rannsóknir og misferli til að reyna að knýja meirihlutann til að kaupa þá út á verði sem er óraunhæft,“ segir Sigurgeir. Hann segir þetta ekki í fyrsta skipti sem þeir leiki þennan leik.

„Þeir geta alveg gleymt því að við förum að kaupa þá út á einhverju óraunhæfu verði og steypa okkur sjálfum í skuldir sem við ráðum ekki við. Þeir verða að átta sig á því að árið 2007 er löngu liðið,“ segir Sigurgeir. Hann segir fulltrúa Stillu í stjórn Vinnslustöðvarinnar hafa aðgang að öllum upplýsingum um félagið og því þurfi ekki að kveðja til rannsóknarnefnd og leggja í kostnaðarsama rannsókn.

Í kjölfar aðalfundarins fóru fulltrúar Stillu fram á hluthafafund þar sem þeir áforma að leggja til að Vinnslustöðin höfði skaðabótamál gegn framkvæmdastjóra og nokkrum stjórnarmönnum vegna kaupa félagsins á útgerðinni Ufsabergi.

Sigurgeir segir augljóst að kaup Vinnslustöðvarinnar á 35 prósenta hlut í Ufsabergi hafi verið góð kaup. Bæði fyrirtækin hafi skilað hagnaði á hverju ári frá því kaupin hafi verið gerð, og nú sé stefnt á að sameina þau.

Í kjölfar þess að meirihlutinn hafnaði tillögum fulltrúa Stillu á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar voru Hjálmar og Guðmundur Kristjánssynir felldir af meirihlutanum í kjöri til stjórnar og varastjórnar, þar sem þeir áttu áður sæti.

Guðmundur vildi ekki tjá sig um deilurnar í stjórn Vinnslustöðvarinnar þegar í hann náðist í gær.

Hann sagði þó að hann og aðrir sem standi að Stillu hafi viljað selja sinn hlut í Vinnslustöðinni í á þriðja ár, og þeir vonist til að það takist bráðlega.

brjann@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×