Fastir pennar

Það sem við vitum ekki

Jónína Michaelsdóttir skrifar
Í kvikmyndum sem gerðar voru um og eftir síðari heimstyrjöld var nánast regla að aðalleikararnir væru annað hvort með sígarettu í hægri hendi milli vísifingurs og löngutangar, eða í munnvikinu. Þetta var hluti af kúlinu. Reykingar breiddust hratt út hér á landi eins og annars staðar, sumir reyktu út af tóbaksnautn, en aðrir út af því hvað það var heimsborgaralegt að halda á sígarettu. Að vanda var nafnið á þessu fyrirbæri íslenskað og kallað vindlingur, en það orð festi ekki rætur hjá almenningi. Hitt var smartara. Mér er minnisstætt þegar glæsileg frænka mín sat heima í stofu með sígarettu í hendi og litla systir mín horfði hrifin á og spurði hvort hún mætti prófa að halda svona á sígarettunni. Frænka taldi það nú ekki við hæfi, og þá sagði systir mín í ákveðin: Ég ætla sko að reykja þegar ég er orðin stór!" Það gerði hún reyndar ekki, en þetta rifjar upp hvað reykingastellingin er elegant og kvenleg þegar best lætur.

Nánast allt fullorðið fólk í minni fjölskyldu og fjölskyldum vina minna reykti, og það var óskemmtilegt að fara út úr bænum til að sporta sig í náttúrunni í bifreið sem var reykt í alla leiðina. En þetta var bara hluti af tilverunni. Enginn talaði um að þetta væri skaðlegt. Meira að segja mjög skaðlegt. Móðir mín var þeirra gerðar að hún hefði hvorki reykt heima né leyft öðrum að gera það hefði hana grunað að það gæti á nokkurn hátt verið skaðlegt fyrir okkur systurnar. En það vissi hún ekki. Það vita hins vegar allir í dag og þeir sem kjósa að reykja gera það á eigin ábyrgð.

Reynslunni ríkariÁ sínum tíma hafði maður spurnir af því að amfetamín væri algjör snilld og unglingar í landsprófi, nemendur í menntaskóla eða háskóla gætu vakað heilu næturnar við lestur án þess að þreytast. Þetta var töfralausn. Sagt var að sumir listamenn hefðu nýtt sér þetta í nokkur ár, en áttað sig smám saman á því að þetta var langt frá því að vera heilsubót, nema í þeim tilvikum sem um raunveruleg veikindi er að ræða. Mér er sagt að harðir fíklar og þeir sem dreifa fíkniefnum séu svo vel að sér í lyfjategundum og blöndun lyfja til að fá þau áhrif sem eftir er sóst, að það jaðri við fagmennsku í lyfjafræði. Sel það ekki dýrar en ég keypti það. En mestu skiptir að hver og einn hefur val. Velji menn að taka þá áhættu að prófa fíknilyf, geta þeir ekki vitað hvert það ber þá. Sumir geta hrist þetta af sér og lifað eðlilegu fjölskyldulífi, aðrir verða fíklar það sem eftir er, og þá hvorki skipstjórar né stýrimenn í eigin lífi.

Lykilatriði er, að öndvert við það sem áður var, hjá stórreykingarfólki og þeim sem hresstu sig á amfetamíni, þá veit nútímafólk hvað þetta getur kostað. Og það er býsna dýrt. En allir hafa val.

Tæknin eða reiðinMaður spyr sig náttúrulega þessa dagana hvort ástandið í þjóðfélaginu, kreppan og kvíðinn eigi einhvern þátt í skyndilegum dauðsföllum fólks á miðjum aldri og öllum þessum krabbameinstilfellum. Er það spennan, reiðin og vonleysið? Svo má spyrja hvort tæknin sem við erum orðin svo háð sé saklaus með öllu. Kona sem átti erfitt um svefn var alltaf með farsímann á náttborðinu. Henni kom í hug að kannski væri það ekki hollt og fór með hann annað. Síðan sefur hún eins og barn. Við höldum á litlu símtæki í lófanum sem er ekki með neina jarðtengingu og hringjum til London eða New York. Erum við ekki umkringd af ósýnilegum orkugeislum sem við kunnum ekkert á og vitum ekkert af. Er það heilsubætandi? Varla. Ekki frekar en reykingarnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×