Viðskipti innlent

Skemmtiferðaskip skila milljörðum

Fyrsta skemmtiferðaskip þessa árs kom til landsins um miðjan maí. fréttablaðið/stefán
Fyrsta skemmtiferðaskip þessa árs kom til landsins um miðjan maí. fréttablaðið/stefán
Um 74 þúsund ferðamenn komu sjóleiðina til landsins í fyrra og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þetta kemur fram í Sjómannadagsblaðinu, en þar segir einnig að stöðug fjölgun skemmtiferðaskipa skili sífellt hærri upphæðum í gjaldeyristekjur.

Í blaðinu er vitnað í könnun Hafnasambands Íslands um komur skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur, Akureyrar og Seyðisfjarðar. Niðurstöðurnar voru þær að farþegar eyddu að meðaltali 72 evrum í landi árið 2009. Ef miðað er við gengi ársins 2010 má því gera ráð fyrir að hver farþegi eyði að meðaltali um 11.200 krónum í landi, sem þýðir að farþegarnir eyddu tæpum 1,9 milljörðum meðan á dvöl þeirra stóð. Við þessa tölu bætist svo eyðsla áhafnarmeðlima og hafnargjöld, sem hækka töluna í um 2,7 milljarða króna.

Í könnuninni kom einnig fram að langflestir þeirra erlendu ferðamanna sem komu sjóleiðina til landsins á síðasta ári voru Þjóðverjar, rúmlega 25 þúsund. Þar á eftir komu Bretar og Bandaríkjamenn. Yngri farþegum á skemmtiferðaskipunum hefur fjölgað og má rekja það til þess að verð á siglingunum hefur lækkað, en meðalaldur farþeganna sem hingað koma er 59 ár.- ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×