Skoðun

Að styðja við samkeppni í raun

Árni Páll Árnason skrifar
Ritstjóri Fréttablaðsins stökk til varnar kvótakerfinu í leiðara og vék að ummælum mínum um mikilvægi öflugrar samkeppni í öllum atvinnugreinum í þeim tilgangi. Það var gamalkunnugt og nánast ósjálfrátt viðbragð til varnar útgerðinni, en spyrja má hvort besta vörnin sé sú sem veitt er af gömlum vana.



Íslenskt atvinnulíf einkennist af fákeppni á fjölmörgum mörkuðum. Saga okkar sýnir hvernig allt hefur lagst á eitt: Landfræðileg einangrun, smæð hagkerfisins, tengsl ráðandi flokka við fyrirferðarmestu aðila í atvinnulífi, sveiflukennt efnahagslíf og smæð heimamarkaðar.



Með EES-samningnum náðum við þeim árangri að brjóta skörð í varnarvegg um kyrrstöðu í atvinnulífinu. Heimamarkaðurinn stækkaði gríðarlega og nýjar samkeppnisreglur tóku gildi, sem takmörkuðu kúgunarvald ráðandi aðila á markaði. Umræðan um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs verður að taka mið af þessum staðreyndum, en ekki að lokast inni í slagorðum og frösum, eins og gætir í fyrrnefndum leiðara.



Í tilvitnuðu viðtali í Markaðnum nefndi ég að brjóta þurfi niður alla múra forréttinda og sérréttinda í einstökum atvinnugreinum og hvetja til nýliðunar og nýsköpunar. Það á við um allar atvinnugreinar hér á landi – allar og alltaf. Í fámenninu er auðvelt að velja sér vini og verja til dæmis með kjafti og klóm fákeppni á kostnað neytenda í mjólkuriðnaði – eins og sjálfstæðismenn gera af mikilli hugsjónagleði – eða telja einhverja aðra atvinnugrein svo sérstaka að rétt sé að gera henni sérstaklega hátt undir höfði og undanskilja hana almennum leikreglum að einhverju leyti. Almennu reglurnar eigi vissulega að gilda – bara ekki núna og ekki um þessa atvinnugrein. Þetta er leið fortíðarinnar – leiðin til samfélags fákeppni og einhæfra atvinnuhátta.



Grundvallaratriðin eru þau að útgerðin greiði í sjóð Íslendinga endurgjald fyrir afnot af auðlindinni sem endurspegli eðlilega auðlindarentu og að nýliðun sé möguleg í þessari grein sem öðrum.

Greinin verður áfram að vera samkeppnishæf og arðsöm. Nú ætla ég mér ekki þá dul að halda því fram að allt sem í nýjum frumvörpum er að finna sé fullkomin snilld og vafalaust má sníða agnúa af þeim frumvörpum í þinginu. Til þess er líka gefinn tími. Aðalatriðið er að ekki má nálgast málið út frá því sjónarmiði að breytingar í þágu almannahagsmuna séu óásættanlegar út frá hagsmunum útgerðarinnar. Ef þetta tvennt rekst á, verða almannahagsmunir að ráða.



Barátta næstu ára snýst um hvort íslenskt atvinnulíf verði í raun alþjóðlega samkeppnishæft atvinnulíf eða hvort hin dauða hönd kolkrabba, flokkshesta og einkavina leggist á ný yfir íslenskt atvinnulíf. Í þeirri baráttu þurfa allir áhugamenn um samkeppnishæft atvinnulíf að standa saman.




Skoðun

Sjá meira


×