Handbolti

Ísland á möguleika á að fara í léttasta riðilinn í forkeppni ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson í leiknum gegn Frakklandi í gær.
Aron Pálmarsson í leiknum gegn Frakklandi í gær. Mynd/Valli
Nú þegar ljóst er að Ísland er með öruggt sæti í forkeppni Ólympíuleikanna í Lundúnum árið 2012 er rétt að skoða í hvaða riðlil Ísland á möguleika á að spila í.

Alls keppa tólf lið í handbolta á Ólympíuleikunum. Ellefu þeirra verða að vinna sér inn þátttökurétt en gestgjafarnir, Bretland, fá sinn sjálfkrafa.

Heimsmeistararnir og þar að auki fjórir álfumeistarar (Evrópu, Asíu, Afríku og Ameríku) fá þátttökurétt til mótinu.

Það þýðir að eftir standa sex sæti sem keppt verður um í áðurnefndri forkeppni.

Í forkeppnina komast tólf lið - þar af þau sex lið sem verða í 2.-7. sæti á HM í Svíþjóð. Ísland spilar um 5.-6. sætið og er því með öruggt sæti þar.

En nú er spurning í hvaða riðli Ísland lendir í forkeppninni því þeir eru mismunandi erfiðir.

Hérna má sjá hvernig liðin tólf raðast í þrjá riðla í forkeppninni:Riðill 1:


2. sæti á HM

7. sæti á HM


Evrópuþjóð - sú þjóð sem nær næstbestum árangri á EM 2012 í Serbíu af þeim sem ekki tryggðu sér sæti í forkeppni ÓL á HM 2011.

Afríkuþjóð - sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Afríkumótinu 2011.

Riðill 2:

3. sæti á HM

6. sæti á HM

Ameríkuþjóð
- sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Ameríkumótinu 2011.

Evrópuþjóð - sú þjóð sem nær þriðja besta árangri á EM 2012 í Serbíu af þeim sem ekki tryggðu sér sæti í forkeppni ÓL á HM 2011.

Riðill 3:

4. sæti á HM

5. sæti á HM

Asíuþjóð
- sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Asíumótinu 2011.

Ameríkuþjóð - sú þjóð sem nær þriðja besta árangri á Ameríkumótinu 2011.

Augljóst er á þessu að auðveldasti riðillinn í undankeppninni er sá þriðji. Hann er sá eini sem ekki er með þremur Evrópuþjóðum.

Ísland mun á föstudaginn spila við 5.-6. sætið á HM þegar liðið mætir Króatíu. Það er því mikið að vinna í þessum leik þar sem að talsvert auðveldari riðill í forkeppni ÓL bíður liðinu sem lendir í fimmta sæti.

Hins vegar er rétt að nefna eitt til viðbótar. Ef ske kynni að Ísland myndi tapa fyrir Króatíu og enda í sjötta sæti á HM í Svíþjóð gæti samt verið möguleiki á því að komast í riðil 3.

Ef eitt af liðunum sem lenda í 2.-5. sæti á HM í Svíþjóð verður svo Evrópumeistari í Serbíu á næsta ári fær viðkomandi sjálfkrafa þátttökurétt á Ólympíuleikunum og þarf því ekki að taka þátt í forkeppninni. Liðin sem urðu í næstu sætum á eftir viðkomandi liði á HM í Svíþjóð myndu því færast upp um eitt sæti.

Semsagt - Ísland myndi því „færast upp" í fimmta sætið.

Það er eitt sem viðbótar sem gæti haft áhrif á þessa niðurröðun. Ef sama lið verður heimsmeistari nú í Svíþjóð og svo Evrópumeistari í Serbíu á næsta ári fær liðið sem hlýtur silfur á EM 2012 sjálfkrafa þátttökurétt á Ólympíuleikunum. Ef það lið var þegar búið að tryggja sér sæti í forkeppninni færast önnur lið upp um eitt sæti.

Forkeppnin sjálf fer fram í apríl á næsta ári en það mun ekki verða endanlega ljóst hvernig riðlarnir verða skipaðir fyrr en eftir EM í Serbíu á næsta ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.