Handbolti

Tvisvar byrjað á móti Þjóðverjum í milliriðli og tapað báðum leikjum stórt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjóðverjinn Andrej Klimovets skorar á móti Íslandi á EM í Noregi 2008.
Þjóðverjinn Andrej Klimovets skorar á móti Íslandi á EM í Noregi 2008. Mynd/AFP
Íslenska landsliðið hefur keppni í milliriðli í dag þegar strákarnir okkar mæta Þjóðverjum. Þetta er í þriðja skiptið sem Ísland mætir Þjóðverjum í fyrsta leik í milliriðli í stórmóti og í bæði hin skiptin hafa Þjóðverjar komist í 6-0 og unnið stóra sigra. Þessari tölfræði þurfa strákarnir að breyta í dag.

Ísland tapaði 16-23 á móti Þjóðverjum í fyrsta leik í milliriðli á HM í Svíþjóð 1993. Þjóðverjar komust í 6-0 í leiknum og fyrsta mark íslenska liðsins (Júlíus Jónasson) kom ekki fyrr en eftir rúmlega 10 mínútna leik.

Þjóðverjar voru 10-5 yfir í hálfleik, íslenska liðið minnkaði muninn í þrjú mörk í seinni en nær komust þeir ekki og Þjóðverjar unnu öruggan sigur. Júlíus Jónasson var markahæstur í íslenska liðinu með 5 mörk en Bernd Roos skoraði 6 mörk fyrir Þjóðverja.

Ísland tapaði 27-35 á móti Þjóðverjum í fyrsta leik í milliriðli á EM í Noregi 2008. Þjóðverjar komust í 6-0 í leiknum og fyrsta mark íslenska liðsins (Guðjón Valur Sigurðsson) kom ekki fyrr en eftir 10 mínútna leik. Þýska liðið komst í 14-5 en íslenska liðið minnkaði muninn niður í 17-12 fyrir hálfleik.

Ísland náði að minnka muninn niður í tvö mörk (21-23) þegar 17 mínútur voru eftir en Þjóðverjar skoruðu þá sex mörk gegn einu og stungu aftur af. Ólafur Stefánsson var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk en Holger Glandorf skoraði 9 mörk fyrir Þýskaland.

Þrisvar unnið fyrsta leik í milliriðli
Vignir Svavarsson fékk harðar mótttökur hjá Þjóðverjum fyrir þremur árum.Mynd/AFP
Íslenska landsliðið hefur tíu sinnum komist í milliriðil á stórmóti og þrisvar byrjað á sigri. Íslenska liðið vann sinn fyrsta leik í milliriðli á HM 2003 (Pólland), EM 2006 (Rússland) og á HM 2007 (Túnis). Strákarnir hafa þrisvar gert jafntefli í fyrsta leik í milliriðli og fjórum sinnum byrjað á tapi.

Ísland tapaði fyrsta leik í milliriðli á HM 1986 (Ungverjaland), HM 1990 (Sovétríkin), HM 1993 (Þýskaland) og á EM 2008 (Þýskaland). Liðið gerði hinsvegar jafntefli í fyrsta leik á HM 1961 (Tékkóslóvakía), á EM 2002 (Frakkland) og á EM 2010 (Króatía)

Guðmundur Guðmundsson hefur þrisvar stýrt íslenska liðinu í fyrsta leik í milliriðli og liðið hefur ekki tapað, gerði 26-26 jafntefli við Krótata á EM í Austurríki í fyrra og 26-26 jafntefli við Frakka á EM 2002 og vann síðan 33-29 sigur á Pólverjum á HM í Portúgal 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×