Handbolti

Þórir: Ég á heilmikið í því sem áður hefur verið gert

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aðstoðarmenn Þóris Hergeirssonar báru hann um salinn eftir að heimsmeistaratitilinn var í höfn hjá norska liðinu.
Aðstoðarmenn Þóris Hergeirssonar báru hann um salinn eftir að heimsmeistaratitilinn var í höfn hjá norska liðinu. Nordic Photos / AFP
Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans í norska kvennalandsliðinu eru bestar í heimi. Þær unnu átta síðustu leiki sína á HM í Brasilíu og tryggðu sér titilinn með því að vinna sannfærandi átta marka sigur á Frakklandi í úrslitaleiknum. Þórir tók við starfi Marit Breivik og undir hans stjórn hefur liðið unnið verðlaun á þremur fyrstu mótunum þar af gull á þeim tveimur síðustu.

„Við erum búin að vera hér í þrjár vikur og þetta er búið að vera alveg meiri háttar mót fyrir okkur. Við höfum leikið betur og betur með hverjum leik þannig að það er ekki hægt að biðja um meira. Það er mjög góð tilfinning að vera heimsmeistari. Þetta er almennilega að renna upp fyrir manni núna. Það voru blandaðar tilfinningar í gær og þetta fer að síga inn meira og meira," sagði Þórir

Var að gæla við undanúrslitin„Þetta var alveg frábært. Þetta var framar vonum. Ég var að gæla við það ef við myndum ná stíganda og ná að spila þetta þokkalega þá gætum við kannski náð í undanúrslit. Þegar við vorum komin í átta liða úrslitin þá var svo mikil orka í mannskapnum og svo mikill stígandi í þessu hjá okkur og þá fórum við bara að tala um það að við gætum alveg eins farið alla leið ef þetta héldi svona áfram. Við sáum það að ef við gætum náð að lyfta þessu upp um fimm prósent í hverjum leik þá liti þetta vel út," segir Þórir en hann hefur unnið frábært starf í að vega upp fjarveru lykilmanna sem duttu út fyrir þetta mót.

Búin að nota árið mjög vel
Norsku leikmennirnir og þjálfarar liðsins fagna hér saman eftir sigurinn á Frökkum í úrslitaleiknum á HM í Brasilíu. afp
„Við erum búin að nota árið mjög vel. Ég er búinn að nota mikið af yngri stelpunum og hef verið að vinna með þær. Þær sem voru meiddar og í barnsburðarleyfum hafa síðan verið í sérprógrammi og við höfum fylgt því vel eftir sem hefur borið ávöxt. Þetta verður mjög spennandi á næstu árum," segir Þórir sem er ekki aðeins búinn að setja saman besta lið í heimi í dag heldur einnig lið sem er líklegt til afreka á næstu árum þar á meðal á næsta stórmóti sem eru Ólympíuleikarnir í London í september.

Þetta var stór stund fyrir Þóri og marga reynsluboltana í liðinu sem voru búnar að vinna alla titla nema heimsmeistaramótið.

Leikgreindi fyrir liðið á HM 1999„Ég var búinn að vera í tveimur úrslitaleikjum á HM áður, 2001 og 2007. Við töpuðum þeim báðum og svo spilaði ég um þriðja sætið í Kína fyrir tveimur árum. Ég hef ekki unnið HM nema 1999, þá var ég í leikgreiningu fyrir Marit," sagði Þórir en hvað finnst honum um það sjónarhorn norsku fjölmiðlamannanna að hann sé nú kominn út úr skugga Marit Breivik sem þjálfaði liðið með frábærum árangri frá 1994 til 2008.

„Ég er voða rólegur yfir því. Ég er búinn að vinna með Marit síðan 1994 þegar hún byrjaði að þjálfa kvennaliðið og ég var að þjálfa yngri landsliðin. Ég er búinn að þjálfa þessar stelpur í landsliðinu meira eða minna síðan þær komu inn í yngri landsliðin," segir Þórir en norska landsliðið hefur unnið tíu verðlaun á stórmótum þar sem Þórir hefur verið annaðhvort þjálfari eða aðstoðarþjálfari.

„Við Marit erum búin að vinna saman síðan 1994 og svo vorum við saman í teymi frá 2001 til 2009. Ég hefði ekkert verið með í því nema ef ég hefði fengið að hafa einhver áhrif. Mér finnst ég eiga heilmikið í því sem hefur verið gert áður og ég hef líka lært heilmikið í samvinnu við Marit," sagði Þórir og bætir við:

„Það hefur verið mjög gott fyrir mína þróun sem þjálfara að vinna með henni en ég hef mitt og við erum ekki lík í öllu. Við höfum líka leiðtogahugmyndafræði en svo höfum við mismunandi skoðanir varðandi handbolta sem er bara mjög gott," segir Þórir og það fer ekki á milli mála að fagmennskan er í hávegum höfð í uppbyggingu norska liðsins.

Unnið kerfisbundið„Það hefur verið unnið mjög kerfisbundið með þessar stelpur frá því að þær komu inn í yngri landsliðin. Það er verið að byggja mikið á sömu heimspekinni. Við leggjum mikið upp með það að fá leikmennina meðvirka í sinni eigin þjálfun. Þær þurfa að taka meiri ábyrgð á því sem þær eru að gera og læra. Það hefur gefið okkur mjög gott jafnvægi og þegar á reynir er mikill vinnuandi í þessum hópi. Við höfum náð að virkja hópinn, leikmennirnir eiga miklu meira í þessu og þá hefur þetta meira gildi fyrir þá," segir Þórir.

Tvær milljónir horfðu á leikinnÞórir veit af miklum áhuga norsku þjóðarinnar á gullstelpunum en býst við rólegum viðtökum þegar liðið kemur heim til Noregs á morgun.

„Liðið er mjög vinsælt. Það voru rúmlega tvær milljónir sem sáu úrslitaleikinn og það er helmingurinn af þjóðinni sem er met. Þetta er mjög góður árangur og þetta er búið að vera alveg geysilega vel unnið hjá stelpunum. Þetta er hörkuhópur," segir Þórir sem viðurkennir að bensíntankurinn hjá sér sé nú orðinn frekar tómur.

„Ég væri að ljúga ef ég segði eitthvað annað. Nú er bara að fara heim, halda upp á jólin, slappa af og fylla á batteríin," segir Þórir en tengsl Selfyssingsins við Ísland eru alltaf sterk þrátt fyrir að hann hafi verið í Noregi í 25 ár.

Fullt af kveðjum frá Íslandi„Ég er búinn að fá fullt af kveðjum frá Íslandi og það er gaman að því. Íslenska liðið stóð sig mjög vel á mótinu og tók nýtt skref í þessu sem er mjög jákvætt," segir Þórir og hann fagnar því að íslenska þjóðin vilji eigna sér einhvern hlut í árangri hans. „Einu sinni Íslendingur alltaf Íslendingur," sagði Þórir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×