Viðskipti innlent

Fleiri gætu fengið bakreikning

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fengu fyrri eigendur Húsasmiðjunnar bakreikning frá skattinum vegna skuldsettrar yfirtöku á fyrirtækinu. Samkvæmt yfirlýstri afstöðu skattayfirvalda má ráða að líklegt sé að fleiri fyrirtæki eigi von á slíkum reikningi.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fengu fyrri eigendur Húsasmiðjunnar bakreikning frá skattinum vegna skuldsettrar yfirtöku á fyrirtækinu. Samkvæmt yfirlýstri afstöðu skattayfirvalda má ráða að líklegt sé að fleiri fyrirtæki eigi von á slíkum reikningi. Fréttablaðið/Anton
Afstaða skattayfirvalda varðandi vexti á lánum vegna skuldsettra yfirtaka á fyrirtækjum er sú að þeir séu ekki frádráttarbærir frá tekjum fyrirtækja, þar sem ekki séu uppfyllt grundvallarskilyrði fyrir frádráttarbærni. Þetta segir í fréttatilkynningu frá embætti Ríkisskattstjóra frá desember 2009.

Eins og kom fram í frétt blaðsins í gær herma heimildir að fyrri eigendur Húsasmiðjunnar hafi fengið endurálagningu skatta af þessum sökum. Mun upphæðin hafa numið um hálfum milljarði króna.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri sagðist ekki geta tjáð sig um málið í samtali við Fréttablaðið.

Í ljósi þess sem tekið er fram í fyrrnefndri fréttatilkynningu má hins vegar áætla að fleiri félög sem beitt hafa skuldsettri yfirtöku hafi fengið eða muni fá tilkynningu um endurálagningu. Þar sem þess konar gjörningar voru algengir fyrir bankahrun gæti verið um verulegar fjárhæðir að ræða.

Lög um tekjuskatt heimila endurákvörðun skatta vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Samkvæmt því geta skattayfirvöld krafist endurálagningar vegna áranna 2005 til 2010, sé tilkynning send út áður en þetta ár er liðið.- þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×