Handbolti

Það er smá krísa hjá Þjóðverjunum

Henry Birgir Gunnarsson í Jönköping skrifar

Guðjón Valur Sigurðsson var afslappaður og vel stemmdur þegar Fréttablaðið hitti á hann eftir komu landsliðsins til Jönköping þar sem milliriðillinn verður spilaður.

„Það er fínt að byrja á Þjóðverjum. Það er lið sem við þekkjum vel og okkur hefur gengið vel með þá síðustu árin. Þeim finnst eflaust ekkert sérstaklega gaman að mæta okkur. Það er búin að vera smá krísa í gangi með þá. Það er óánægja með þeirra gengi og spilamennsku. Við verðum að nýta okkur það og ná yfirhöndinni. Þá vonandi ná þeir sér ekki á strik," sagði Guðjón Valur.

Það hefur ekki verið hægt að sjá það á þessu móti að Guðjón sé nýkominn á lappir eftir tíu mánaða fjarveru. Hann er að spila hreint frábærlega og hefur leikið mest allra leikmanna íslenska liðsins á mótinu.

„Nei, ég er ekkert þreyttur. Það er öðruvísi álag á mér en mörgum af hinum í liðinu. Eins og Noregsleikurinn spilaðist til að mynda þá var ekki mikið álag. Þá var maður meira í því að skokka og passa sinn mann. Ég undirbjó mig undir að spila allt mótið. Það er þjálfarinn sem ákveður hver er inni á vellinum og hversu lengi. Á meðan hann biður mig um að vera inná þá er ég þar," sagði Guðjón ákveðinn.

Hann er ánægður með að vera kominn frá Linköping og yfir á hið glæsilega liðshótel í Jönköping. „Það er fínt að vera kominn hingað. Við fengum líka stærra herbergi og erum ekki með lyftuna á koddanum eins og á hinu hótelinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×