Innlent

Þjónusta Stígamóta virkar fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Fólki sem hefur leitað aðstoðar Stígamóta eftir að hafa lent í áfalli vegna kynferðisofbeldis virðist líða mun betur andlega en því sem ekki hefur fengið ráðgjöf. Þetta sýnir rannsókn sem gerð var við Háskóla Íslands og kynnt var í dag.

Rannsóknin var lokaverkefni í félagsráðgjöf og tók mið af svörum fólks sem leitaði til Stígamóta á tímabilinu 1. júlí til 15. október í fyrra. Fólkinu var skipt upp í tvo hópa í öðrum, sem nefndur eru hópur 1, voru þolendur sem voru að koma í sitt fyrsta viðtal en í hinum, sem nefndur er hópur 2, var fólk sem hafði komið fjögur viðtöl hjá Stígamótum eða fleiri.

Inga Vildís Bjarnadóttir, gerði rannsóknina. „Niðurstöðurnar eru helstar að þeir einstaklingar sem voru búnir að koma í að minnsta kosti fjögur viðtöl höfðu mun minni einkenni þunglyndis, kvíða og streitu og höfðu meiri sjálfsvirðingu en þeir sem voru að koma í fyrsta skipti til Stígamóta. Ég verða að leyfa mér að draga þá ályktun af þessum niðurstöðum að starf Stígamóta sé að skila þjónustu sem virkar fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Þeim líður mun betur eftir að hafa verið í viðtölum þar," segir Inga Vildís.

Þátttakendur voru 62, þar af voru fjórir karlmenn. Aldur þátttakenda var á bilinu 16 til 68 ára. Hópar 1 og 2 voru sambærilegir á öllum helstu þáttum hvað varðar aldur, hjúskaparstöðu, atvinnuþátttöku og menntun. Birtingarmynd ofbeldisins var sambærileg nema að því leiti að fleiri í hóp 2 höfðu orðið fyrir nauðgun. Afleiðingar ofbeldisins voru sambærilegar milli hópa varðandi sjálfsvígstilraunir og fíknir, nema hvað marktækt færri í hóp 1 áttu ekki við neina fíkn að stríða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×