Handbolti

Danir tryggðu bæði sér og Svíum sæti í undanúrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen lék vel í kvöld.
Mikkel Hansen lék vel í kvöld. Mynd/AFP

Danir unnu sjöunda leikinn sinn í röð á HM í handbolta í kvöld þegar liðið vann Argentínumenn með sjö marka mun, 31-24. Danmörk og Svíþjóð spila um efsta sætið í milliriðlinum á þriðjudaginn en þau eru bæði komin áfram eftir úrslit kvöldsins.

Danir eru komnir í undanúrslit þrátt fyrir að ein umferð sé enn eftir í milliriðlinum og sigur þeirra á Argentínu þýðir einnig að ekkert lið getur náð Svíum sem unnu Króata fyrr í dag.

Pólverjar unnu Serba 27-26 en geta aðeins náð Svíum að stigum og Svíar verða alltaf ofar, verði þau jöfn, þökk sé 24-21 sigri á pólska liðinu í lokaleik þeirra í riðlakeppninni. Danmörk og Svíþjóð spila um efsta sætið í milliriðlinum á þriðjudaginn.

Danir tóku strax frumkvæðið á móti Argentínumönnum, komust í 5-2, 7-3, 10-5, 13-7 og voru 17-12 yfir í hálfleik. Danir skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og voru þá komnir sjö mörkum yfir.

Argentínumenn gáfust þó aldrei upp og náðu alltaf að minnka muninn aftur. Þeir skoruðu meðal annars þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni úr 24-19 í 24-22. Danir sýndu þá styrk sinn, skoruðu fimm mörk í röð og gerðu út um leikinn.

Mikkel Hansen skoraði 7 mörk fyrir Dani þarf af sex þeirra í fyrri hálfleik. Þeir Anders Eggert og Lasse Svan Hansen skoruðu báðir 6 mörk og Niklas Landin kom inn í markið í lokin og varði 7 af 9 skotum sem komu á hann.

Karol Bielecki tryggði Pólverjum sigur á Serbum þegar hann skoraði sigurmarkið ellefu sekúndum fyrir leikslok en leikurinn var æsispennandi þar sem liðin skiptust á að hafa forustuna. Pólverjar eru með fjögur stig í riðlunum en Serbar hafa bara eitt sitg.

Tomasz Tluczynski skoraði 10 mörk úr 11 skotum fyrir Pólverja og Karol Bielecki og Marcin Lijewski skoruðu báðir fjögur mörk. Marko Vujin skoraði 11 mörk fyrir Serba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×