Körfubolti

Töp hjá bæði Helga og Loga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Mynd/Solna Vikings
Íslendingaliðin 08 Stockholm HR og Solna Vikings töpuðu bæði í kvöld í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta en Helgi Már Magnússon og félagar í 08 Stockholm HR voru búnir að vinna sex leiki í röð og áttu möguleika á því að komast upp í annað sæti deildarinnar. Loga Gunnarssyni og félögum í Solna Vikings liðinu hefur gengið illa á útivelli í vetur og það breyttist ekki á móti toppliði Borås Basket.

Helgi Már Magnússon var með 14 stig á 24 mínútum þegar 08 Stockholm HR tapaði 75-79 á heimavelli á móti Södertälje Kings en þetta var fyrsta tap liðsins síðan 25. nóvember þegar þeir töpuðu með einu stigi á móti Jämtland Basket. Helgi Már var líka með 4 fráköst og 1 varið skot en hitti aðeins úr 1 af 5 vítum sínum.

08 Stockholm HR var fjórum stigum undir eftir fyrsta leikhluta (13-17) og sex stigum undir í hálfleik (32-38) en það var slæm byrjun á seinni hálfleik sem reyndist þeim dýrkeypt. Södertälje vann fyrstu sex mínútur þriðja leikhlutans 18-5 og komst 19 stigum yfir. 08-liðið vann hægt og rólega upp muninn á lokakaflanum og það munaði aðeins tveimur stigum á liðunum þegar mínúta var eftir.  Södertälje tókst hinsvegar að halda út og tryggja sér sigur.

Logi Gunnarsson var með 15 stig og 3 stoðsendingar á 33 mínútum þegar Solna Vikings tapaði 118-99 á útivelli á móti toppliði Borås Basket en þetta var sjöunda tap Solna í átta útileikjum á þessu tímabili. Borås Basket var með frumkvæðið allan leikinn, var níu stigum yfir í hálfleik og með tólf stiga forskot fyrir lokaleikhlutann.  Logi hitti úr 5 af 15 skotum sínum í leiknum og var einnig með 2 fráköst og 2 stolna bolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×