Innlent

Íslendingar stela meira af tónlist en aðrar þjóðir

Íslendingar kaupa hlutfallslega minna af tónlist á netinu en aðrar þjóðir. Engilbert Hafsteinsson á Tonlist.is bendir þó á að kaup á tónlist á netinu á Íslandi séu í mikilli sókn.
fréttablaðið/gva
Íslendingar kaupa hlutfallslega minna af tónlist á netinu en aðrar þjóðir. Engilbert Hafsteinsson á Tonlist.is bendir þó á að kaup á tónlist á netinu á Íslandi séu í mikilli sókn. fréttablaðið/gva
„Við erum eftir á – við eigum alveg slatta inni,“ segir Engilbert Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Tonlist.is.

Íslendingar kaupa hlutfallslega minna af tónlist á netinu en aðrar þjóðir og stela því meira. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er hlutfall tónlistar sem keypt er á netinu undir tíu prósentum af heildarsölunni meðan hlutfallið á heimsvísu er 29 prósent, samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna IFPI. Engar nákvæmar tölur yfir hlutfall tónlistarsölu á netinu á Íslandi eru tiltækar, en til stendur að ráða bót á því samkvæmt Ásmundi Jónssyni, formanni Félags hljómplötuframleiðenda.

Engilbert telur að Íslendingar séu tveimur árum á eftir öðrum þjóðum í tónlistarverslun á netinu, þrátt fyrir að þjóðin virðist vera afar tæknivædd á öðrum sviðum. „Ég held að verðið spili líka inn í. Virðisaukaskatturinn á tónlist er 25,5 prósent á niðurhali en bara sjö prósent á geisladiski,“ segir hann.

Engilbert bendir á að sala á tónlist á netinu hafi staðnað á heimsvísu milli áranna 2009 og 2010 á meðan hún jókst um 27 prósent hér á landi.

Hann bendir einnig á að 80 prósent af keyptri tónlist á netinu hér á landi séu íslensk. „Þrátt fyrir að við séum með 50 þúsund íslensk lög á móti 5,5 milljónum erlendra laga,“ segir hann og bætir við að hlutfall ólöglegs niðurhals sé hátt hér á landi. „Þannig að tilhneigingin virðist vera að kaupa íslenskt en stela erlendu. Menn sjá U2 auglýsta, rjúka inn á vefinn og kaupa Sálina.“

Vefverslunin iTunes, sem er á vegum Apple, er stærsta tónlistarverslun heims. Verslunin er ekki aðgengileg Íslendingum og engin áform eru um að opna iTunes á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá Bjarna Ákasyni, framkvæmdastjóra Epli.is, umboðsaðila Apple á Íslandi. Bjarni segir þó að þúsundir Íslendinga kaupi tónlist í verslunum iTunes með sérstökum inneignarkortum sem hægt er að nálgast með krókaleiðum.

atlifannar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×