Handbolti

Peter Gentzel: Þetta verður flottasta heimsmeistarakeppni sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Gentzel.
Peter Gentzel. Mynd/AFP
Peter Gentzel, fyrrum landsliðsmarkvörður og goðsögn í sænskum handbolta, er sannfærður um að Svíar munu halda flottustu heimsmeistarakeppnin sem haldin hefur verið en HM í Svíþjóð hefst eftir átta daga.

Peter Gentzel sem er 42 ára gamall, lagði skónna á hilluna síðasta vor eftir að hafa spilað eitt tímabil með Kiel. Hann hafði þó verið atvinnumaður á Spáni (CB Cantabria 1999-2000 og Granollers 2000-2001) og Þýskalandi (HSG Nordhorn 2001-2009 og Kiel 2009-2010) í ellefu ár.

„Ég hef trú á því að HM í Svíþjóð verði hápunktur í handboltasögunni og þetta móti takist vel alveg eins og EM 2002 gerði á sínum tíma. Það munu í kringum 100 sjónvarpsstöðvar sína frá keppninni og um tveir milljarðar frá 160 löndum eiga kost á því að sjá HM í handbolta. Þetta verður mikill hápunktur fyrir handboltann," sagði Peter Gentzel.

Gentzel vann fjögur gull með sænska landsliðinu á sínum landsliðsferli þar á meðal varð hann heimsmeistari í Egyptalandi árið 1999.

„Ég vonast til að öll þessi mikla skipulagning muni skila því að þetta verði flottasta heimsmeistarakeppni sögunnar enda er stefnan tekin að fá 200 þúsund áhorfendur á leikina," sagði Gentzel.

Svíum er þó ekki spáð alltof góðu gengi í keppninni en Gentzel hefur samt trú á sínum mönnum.

„Sænska landsliðið getur komist í undanúrslit, byrji liðið vel í riðlinum og fái góðan stuðning úr stúkunni. Það eru samt Frakkar, Króatar og Danir sem eiga fyrirfram að vera með sterkustu liðin," sagði Gentzel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×