Handbolti

Thierry Omeyer: Þetta var gott veganesti fyrir undanúrslitin

Smári Jökull Jónsson í Jönköping skrifar
Thierry Omeyer fagnar með félögum sínum í leikslok.
Thierry Omeyer fagnar með félögum sínum í leikslok. Mynd/AFP

Thierry Omeyer, hinn frábæri markvörður Frakka, byrjaði leikinn á bekknum en kom svo inn í síðari hálfleik og varði oft skot Íslendinga í dauðafærum.

„Við lékum mjög vel og náðum einnig að hvíla leikmenn eins og Nikola Karabatic og Luc Abalo sem er jákvætt. Það var jafnframt gott fyrir sjálfstraustið að vinna og gott veganesti fyrir undanúrslitin," sagði Omeyer.

Frakkar mæta Svíum í undanúrslitum á föstudaginn en getgátur höfðu verið uppi fyrir leikinn að franska liðið gæti valið sér andstæðing í undanúrslitum.

„Við einbeittum okkur að leiknum gegn Íslandi. Við vissum ekki fyrir leikinn hvort Svíar yrðu í efsta sæti síns riðils en nú vitum við að við mætum þeim. Það verður erfitt þar sem Svíar eru á heimavelli og í undanúrslitum eru engin slök lið. Svíar eru með sterka vörn, góða markverði og eru öflugir í hraðaupphlaupum. Það verður mjög erfiður leikur," sagði Omeyer.

Félagi Omeyer í Kiel, Kim Anderson, meiddist í leik Svía gegn Króatíu og mun ekki leika meira á mótinu.

"Það er leiðinlegt fyrir hann því hann var mjög spenntur fyrir því að leika á þessu móti. Þetta er einnig slæmt fyrir okkur í Kiel. Kim er virkilega góður leikmaður en ég held að leikurinn gegn Svíum verði ekkert auðveldari fyrir okkur þó hann sé ekki með. Fyrst og fremst er þetta svekkjandi fyrir hann," sagði Omeyer að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×