Handbolti

Ege ekki með Noregi á EM í Serbíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steinar Ege fagnar sigri eftir leik með norska landsliðinu.
Steinar Ege fagnar sigri eftir leik með norska landsliðinu. Nordic Photos / AFP
Norðmenn, sem eru með Íslandi í riðli á EM í Serbíu, verða án markvarðarins Steinars Ege í keppninni en hann hefur nú lagt landsliðsskóna á hilluna.

Þetta tilkynnti norska handboltasambandið í morgun. Ege verður 40 ára gamall í apríl næstkomandi en er engu að síður samningsbundinn danska stórliðinu AG til loka tímabilsins 2014.

Ege á að baki sextán ár með norska landsliðinu og 262 leiki. Hann hættir nú til að gefa yngri markvörðum tækifæri með liðinu. „Það var erfitt að taka þessa ákvörðun. Ég átti mér þann draum að vinna til verðlauna á stórmóti og spila á Ólympíuleikum. Ég hef verið lengi að ákveða mig en það er ljóst að líkaminn minn þolir ekki lengur það álag sem fylgir því að spila á stórmóti.“

Robert Hedin, landsliðsþjálfari Noregs, hefur skilning á ákvörðun Ege og segir að Ole Erevik hafi það sem til þurfi að verja mark liðsins. „Hann býr yfir mikilli reynslu og hefur allt það sem þarf til að standa sig mjög vel á EM,“ sagði hann.

Ísland og Noregur eigast við í D-riðli þann 18. janúar næstkomandi. Ísland hefur leik gegn Króatíu og spilar svo gegn Slóveníu í lokaleik riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×