Handbolti

Kiel enn með fullt hús stiga - Füchse Berlin í annað sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kiel er enn með fullt hús stiga eftir sextán umferðir í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta en í dag lagði liðið Þýskalandsmeistara Hamburg, 30-25.

Kiel hefur haft fáheyrða yfirburði í deildinni í vetur og það breyttist ekki í dag. Staðan í hálfleik var 15-12, Kiel í vil, en þó var staðan jöfn þegar rúmar átta mínútur voru til leiksloka, 25-25.

Þá skelltu leikmenn Kiel í lás, skoruðu fimm síðustu mörk leiksins og tryggðu sér þar með sigurinn. Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Kiel en þjálfari liðsins er Alfreð Gíslason. Momir Ilic var markahæstur með tíu mörk, þar af átta af vítalínunni.

Füchse Berlin vann góðan sigur á Grosswallstadt, 29-26, á útivelli. Staðan í hálfleik var 14-12, Berlínarliðinu í vil. Alexander Petersson fór á kostum með Füchse Berlin og var markahæstur með átta mörk. Dagur Sigurðsson er þjálfari liðsins. Sverre Andreas Jakobsson lék í vörn Grosswallstadt.

Kári Kristjáns Kristjánsson skoraði tvö mörk þegar að lið hans, Wetzlar, tapaði fyrir Lübbecke á útivelli, 28-24.

Þá skoraði Rúnar Kárason fjögur mörk fyrir Bergischer sem tapaði fyrir Flensburg á heimavelli, 36-25.

Kiel er semsagt á toppnum með 32 stig en Füchse Berlin komst í annað sætið með sigrinu í dag. Liðið er með 25 stig og þriggja stigaforystu á Hamburg.

Wetzlar er í tólfta sæti með tólf stig. Grosswallstadt í því fjórtánda með níu og Bergischer í fimmtánda með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×