Erlent

Norðmaður selur smjör til hjálpar bágstöddum

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Ungur Normaður hefur ákveðið að fara ótroðnar slóðir til að hjálpa bágstöddum fyrir jólin en hann nýtir til þess smjörskortinn í landinu.

Í því ástandi sem nú ríkir í Noregi telst það til frétta að Norðmaður finni eða eigi smjör. Þrátt fyrir að lúra á dýrmætu smjöri hefur húsbóndinn á þessu heimili ekki áhuga á að nýta sér mjólkurafurðina í jólabaksturinn. Hann hefur nefnilega sett þetta 500 gramma smjörstykki á netuppboð og ætlar að selja það til hæstbjóðanda.

„Ég held að það sé lága kolvetnistískan sem hefur komið okkur í þessa stöðu. Ef menn eru svona aðframkomnir af smjörleysi verða þeir að borga fyrir það."

Christian hefur ekki enn ákveðið hvenær uppboðinu lýkur.

„Fólk hefur áhuga á að sjá smjörið. Það er dýrt núna og menn verða að borga fyrir að fá að smakka."

Nú hugsa eflaust margir: Er þetta brask í anda jólanna? Jú, þó að Christian sé á mjög gráu svæði þá er hjartað eflaust á réttum stað. Með því að nýta sér neyð þeirra sem bráðvantar smjör er hann að hjálpa bágstöddum því söluandvirðið rennur óskert til hjálparstarfs kirkjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×