Handbolti

Rúnar og félagar komnir upp í úrvalsdeild

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar fagnar hér áfanganum í dag. Mynd/heimasíða Rúnars
Rúnar fagnar hér áfanganum í dag. Mynd/heimasíða Rúnars
Rúnar Kárason og félagar í þýska B-deildarliðinu Bergischer tryggðu sér í dag sæti í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Liðið lagði þá lið Arnars Jóns Agnarssonar, Aue, með þremur mörkum, 22-25. Rúnar var markahæstur í liði Bergischer með fimm mörk en Arnar Jón gerði slíkt hið sama fyrir Aue.

Samkvæmt heimildum Vísis fær Rúnar nýjan samning hjá Bergischer og mun leika með þeim í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Aue féll aftur á móti úr þýsku B-deildinni.

Bittenfeld hafnaðí í fjórða sæti suðurriðils B-deildarinnar en liðið tapaði gegn Bietgheim í dag, 37-29. Árni Þór Sigtryggsson skoraði sex mörk fyrir Bittenfeld og Arnór Þór Gunnarsson fimm.

Lið Patreks Jóhannessonar lauk keppni með tapi, 31-29, í dag gegn Dessau. Fannar Friðgeirsson skoraði sjö mörk og Sigfús Sigurðsson þrjú. Hreiðar Levý Guðmundsson stóð í markinu. Óvissa er með framtíð íslensku leikmannanna hjá félaginu en Patrekur er hættur.

Einar Ingi Hrafnsson skoraði þrjú mörk fyrir Nordhorn sem bar sigurorð af Aschersleben, 34-31. Nordhorn hafnaði í fjórða sæti Norðurriðils B-deildarinnar.

Gylfi Gylfason og félagar í Minden höfnuðu aftur á móti í öðru sæti Norðurriðilsins en Minden lagði Wilhelmshavener, 26-25, í dag. Gylfi Gylfason skoraði sex mörk fyrir Minden.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×