Handbolti

Möguleikar íslenska landsliðsins á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson.
Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson. Mynd/Valli

Íslenska landsliðið stendur í ströngu á HM í handbolta á morgun þegar lokaumferð í milliriðlum fer fram. Ísland er enn í baráttu um að ná einu af sjö efstu sætunum, sem skila sæti í forkeppni Ólympíuleikanna. Liðið er í þriðja sæti í milliriðlinum fyrir leiki dagsins en mætir heims-, Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakka klukkan 19.45 annað kvöld.

Haldi Ísland þriðja sætinu spilar liðið um fimmta sæti á mótinu en Íslendingar gætu hins vegar þurft að spila um 9. sætið tapi þeir fyrir Frökkum á sama tíma og Ungverjar vinna Spán og Þjóðverjar vinna Norðmenn.

Ísland ætti þá ekki lengur möguleika á því að komast á Ólympíuleikana í London 2012 nema með því að verða Evrópumeistari í Serbíu á næsta ári.

Lendi íslenska liðið í 4. sæti í riðlinum mun íslenska liðið spila um 7. sætið við liðið í 4. sæti í hinum milliriðlinum. Leikurinn um sjöunda sætið yrði hreinn úrslitaleikur um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig dæmið lítur út fyrir íslenska liðið en til einföldunar er ekki gert ráð fyrir jafnteflum í leikjunum sem gætu flækt málið.

Lykilatriðin ...

Íslenska liðið verður alltaf efst verði Ísland, Ungverjaland og Þýskaland jöfn að stigum þökk sé sex marka sigri á Ungverjum í fyrsta leik mótsins og því að Ungverjar unnu Þjóðverja með "aðeins" tveimur mörkum.

Sex marka sigurinn á Ungverjum þýðir jafnframt að Ísland verður alltaf ofar en Ungverjaland verði liðin jöfn.

Þjóðverjar verða aftur á móti alltaf fyrir ofan Ísland verði liðin jöfn að stigum því Þýskaland vann Ísland 27-24 í fyrsta leiknum í milliriðlinum.



Stig liðanna í riðlinum:


Frakkland 7 stig

Spánn 7 stig

Ísland 4 stig

Ungverjaland 4 stig

Þýskaland 2 stig

Noregur 0 stig



Ísland spilar um 5. sætið ef ...

Ísland vinnur Frakkland

eða

Spánverjar vinna Ungverja og Norðmenn vinna Þjóðverja því þá skipta úrslitin úr íslenska leiknum ekki máli.

eða

Ísland tapar fyrir Frökkum, Ungverjar ná ekki stigi á móti Spáni og Þjóðverjar vinna Noreg. Öll liðin jöfn með 4 stig og Ísland er efst.



Ísland spilar um 7. sæti ef ...

Ísland tapar fyrir Frökkum, Ungverjar vinna Spán og Þjóðverjar vinna ekki Noreg



Ísland spilar um 9. sæti ef ...

Ísland tapar fyrir Frökkum, Ungverjar vinna Spán og Þjóðverjar vinna Noreg.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×