Handbolti

Karabatic: Tilfinningin er stórkostleg

Smári Jökull Jónsson í Malmö skrifar
Nikola Karabatic og Bertrand Gille fagna í leiknum í dag
Nikola Karabatic og Bertrand Gille fagna í leiknum í dag Mynd / AFP
Nikola Karabatic, sem af mörgum er talinn besti handboltaleikmaður heims í dag, spilaði frábærlega fyrir Frakka í úrslitaleiknum gegn Dönum. Hann skoraði tíu mörk og átti þátt í mörgum mörkum félaga sinna eftir að hafa farið illa með vörn Dana.

„Við erum ótrúlega ánægðir með að hafa unnið í dag. Við erum heimsmeistarar og ég er varla búinn að ná því enn, tilfinningin er stórkostleg," sagði Karabatic við Vísi eftir leik.

Karabatic var fyrir leikinn valinn mikilvægasti leikmaður mótsins og hann stóð heldur betur undir þeirri nafnbót með frammistöðu sinni í dag.

„Ég lék vel, ég er ánægður með mína frammistöðu. Ég vissi að ég yrði að spila vel ef við ætluðum að fara með sigur af hólmi. Þetta er mikilvægasti leikur mótsins og það verða allir að spila vel. Svo vona ég að Daniel Narcisse verði kominn til baka í næsta móti og að við getum haldið áfram sigurgöngunni," sagði Karabatic brosandi áður en hann hljóp inn í klefa.

Umtalaður Narcisse lék ekki á mótinu vegna meiðsla en hann hefur verið einn besti maður Frakka undanfarin ár.

Bertrand Gille hefur verið einn af lykilmönnum Frakka á velgengnistímabili þeirra og lék vel á heimsmeistaramótinu. Hann var gríðarlega þreyttur þegar blaðamaður Vísis náði tali af honum að leik loknum en brosti þó, enda með gullpening um hálsinn.

„Ég er mjög þreyttur, þetta var mikil og erfið barátta í dag. Leikurinn var erfiður og við erum gríðarlega ánægðir að hafa unnið. Ég er stoltur að vera hluti af þessu sterka liði og við vonumst til að það verði áframhald á þessari sigurgöngu okkar," sagði Gille en Frakkar eru í dag handhafar allra stóru titlana í handboltanum.

„Mér fannst bæði lið leika mjög vel í dag. Þetta var góður leikur og margir frábærir leikmenn sem spiluðu í dag, margir stórkostlegir leikmenn reyndar. Danska liðið er gott og spilaði vel."

"Það var erfitt að fara inn í klefa að loknum venjulegum leiktíma eftir að þeir höfðu jafnað á síðustu sekúndunum, en við vorum virkilega staðráðnir í að vinna. Ég efaðist oft en við höfðum það að lokum," sagði Bertrand Gille að lokum í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×