Viðskipti innlent

Trésmiðjan TH á Ísafirði er gjaldþrota

Trésmiðjan TH ehf., á Ísafirði hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Eins og fram hefur komið var öllum starfsmönnum fyrirtækisins var sagt upp í lok nóvember en þar unnu þrjátíu manns, bæði á Ísafirði og Akranesi.

Fjallað er um málið á vefsíðu Bæjarins besta á Ísafirði. Þar segir að úrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Vestfjarða í vikunni og var Tryggvi Guðmundsson skipaður skiptastjóri.

Að sögn Tryggva er of snemmt að segja til um helstu kröfur í fyrirtækið. Gefinn er tveggja mánaða frestur til að skila inn kröfulýsingu. „Ég myndi halda að þetta yrði tekið fyrir í mars og þá fyrst liggur fyrir hversu mikið umfang þetta er."

TH ehf., sem áður hét Trésmiðjan Hnífsdal ehf., hefur starfað frá árinu 1958. Á síðasta ári keypti félagið Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar sf. á Akranesi, og starfrækti því tvö trésmíðaverkstæði, annað á Ísafirði og hitt á Akranesi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×