Viðskipti innlent

Greining Íslandsbanka segir launahækkanir of miklar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Launahækkanir á Íslandi undanfarið ár eru langt umfram framleiðniaukningu vinnuafls í hagkerfinu og launahækkanir í samkeppnislöndunum. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá í morgun námu almennar launahækkanir 0,3% í nóvember síðastliðnum og launahækkanir síðustu tólf mánaða nema 9%.

Greining Íslandsbanka segir að þessar launahækkanir hafi knúið verðbólguna hér á landi að stórum hluta undanfarið en kjarnaverðbólgan sem er mælikvarði á innlenda verðbólgu mælist nú 5,0% en var 1,3% í upphafi ársins. Greining Íslandsbanka bendir á að kjarnaverðbólgan sé mælikvarði sem Peningastefnunefnd horfi töluvert til við ákvarðanir sínar og segir til um undirliggjandi innlenda verðbólgu og þann hluta verðbólgunnar sem peningastefnan hefur áhrif á. Þessar miklu launahækkanir séu ein af meginástæðum þess að peningastefnunefndin hafi sagt sig knúna til að hafa stýrivexti hærri hér á landi en þeir eru í nálægum löndum.

Kaupmáttur launa jókst um 0,3% í nóvembermánuði en á síðastliðnum tólf mánuðum hefur hann aukist um 3,6%. Það er mesta hækkun á ársgrundvelli frá því í september árið 2007. Greining Íslandsbanka bendir jafnframt á að kaupmáttur launa hafi hækkað um 7% frá því hún náði sínu lægsta gildi eftir hrun, í maí í fyrra. Það komi því ekki á óvart að einkaneyslan fari vaxandi um þessar mundir en samkvæmt tölum Hagstofunnar jókst einkaneysla um 5,1% á þriðja ársfjórðungi þessa árs borið saman við sama fjórðung fyrra árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×