Viðskipti innlent

Peningastefnunefnd var sammála um stýrivaxtaákvörðunina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Tillaga seðlabankastjóra um að halda stýrivöxtum óbreyttum þann 7. desember síðastliðinn var samþykkt samhljóða af öllum í peningastefnunefnd. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem var gerð opinber í dag.

Á fundinum ræddu nefndarmenn ný gögn um þjóðarbúskapinn sem höfðu komið fram frá síðasta fundi og voru sammála um að þau væru í meginatriðum í takt við spá Seðlabankans sem birt var í nóvemberhefti Peningamála. Hagtölurnar sýndu að efnahagsbatinn á Íslandi hefur haldið áfram þrátt fyrir að það dragi úr hagvexti í heiminum og óvissa hafi aukist.

Í umræðunum kom einnig fram að þótt niðurstöður verðbólgumælinga að undanförnu hefðu verið heldur betri en búist hafði verið við væri verðbólga enn fyrir ofan verðbólgumarkmið Seðlabankans. Peningastefnunefndin telur þó að þróun að undanförnu bendi til þess að verðbólga færist aftur að markmiðinu á næstu misserum.

Á fundinum kváðust nefndarmenn þeirrar skoðunar að núverandi vaxtastig virtist um það bil við hæfi á komandi mánuðum í ljósi efnahagshorfa og hugsanlega óhagstæðrar alþjóðlegrar efnahagsþróunar. Væri horft lengra fram á veginn yrði hins vegar að mati nefndarmanna nauðsynlegt að draga úr núverandi slaka peningastefnunnar eftir því sem efnahagsbatanum vindur fram og dregur úr slaka í þjóðarbúskapnum. Að hve miklu leyti þessi aðlögun ætti sér stað með hærri nafnvöxtum færi þó eftir framvindu verðbólgunnar.

Innlánsvextir eru 3,75%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum 4,5%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 4,75% og daglánavextir 5,75%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×