Viðskipti innlent

"Skipulagt, ólögmætt, markvisst og refsivert"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Einn af yfirmönnum Kaupþings bar fyrir dómi að krafa bankans á hendur sér vegna hlutabréfakaupa væri ekki gild vegna þess að Kaupþing hefði stundað markaðsmisnotkun með því að hafa með „skipulögðum, markvissum, ólögmætum og refsiverðum hætti" haldið uppi verði hlutabréfa í bankanum.

Ingvar Vilhjálmsson var yfirmaður markaðsviðskipta hjá Kaupþingi banka.

Í síðasta mánuði féll dómur í máli slitastjórnar Kaupþings á hendur Ingvari í Héraðsdómi Reykjavíkur en þá var þeirri ákvörðun bankans frá 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð Ingvars rift og hann jafnframt dæmdur til að greiða þrotabúi bankans rúmlega 2,6 milljarða króna.

Um er að ræða eitt af fimm málum gegn fyrrum starfsmönnum sem fallið hafa slitastjórn Kaupþings í vil, en síðast í gær var Magnús Guðmundsson dæmdur til að greiða 717 milljónir króna í Héraðsdómi Reykjavíkur í sambærilegu máli.

Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli er málsvörn Ingvars Vilhjálmssonar, en í dómnum kemur fram að líkt og staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar megi efni samnings um kröfuréttindi ekki vera andstætt lögum og velsæmi, slíkt stofni ekki efnislegan rétt til handa kröfuhafa. Síðan segir:

„Þrátt fyrir að lán (Kaupþings) til (Ingvars) til kaupa á hlutum í Kaupþingi hafi hvorki verið andstæð lögum né velsæmi þegar þau hafi verið veitt byggi (Ingvar) á að þau hafi, á einhverju tímamarki, orðið þáttur í glæpsamlegum og refsiverðum athöfnum (Kaupþings.) Hér sé átt við að (Kaupþing) hafi með skipulögðum, markvissum, ólögmætum og refsiverðum hætti haldið uppi verði hlutabréfa í (bankanum) og að hlutafjáreign starfsmanna (Kaupings) og bann (bankans) við sölu slíkra bréfa hafi verið hluti af þeirri háttsemi."

Með öðrum orðum, þá hélt Ingvar, sem var einn af yfirmönnum Kaupþings, því fram fyrir dómi að bankinn hafi stundað kerfisbundna markaðsmisnotkun og m.a af þeirri ástæðu hafi lánasamningar milli hans og bankans ekki stofnað efnislegan rétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×