Viðskipti innlent

Engin innistæða fyrir síðustu launahækkunum

Hækkun launa er langt umfram framleiðniaukningu vinnuafls í hagkerfinu og þær launahækkanir sem við sjáum í samkeppnislöndunum. Þá er kaupmáttur launa á sama stað og hann var árið 2004.

Laun hækkuðu um 0,3% í nóvember síðastliðnum samkvæmt mánaðarlegri launavísitölu Hagstofa Íslands sem birt var nú í morgun. Þar með er tólf mánaða takturinn kominn upp í 9% og hefur ekki verið svo hraður síðan fyrir hrun, í september árið 2008.

Hagfræðingar í greiningu Íslandsbanka reifa þessi mál í fréttabréfi sínu Morgunkorni en þar kemur fram að þessi hækkun launa sé langt umfram framleiðniaukningu vinnuafls í hagkerfinu og langt umfram þær launahækkanir sem sést hafi í samkeppnislöndunum. Hafi þessar launahækkanir knúið verðbólguna hér á landi að stórum hluta undanfarið.

Með öðrum orðum, það var engin innistæða fyrir launahækkunum síðustu kjarasamninga.

Það sem er jákvætt er að kaupmátturinn launa jókst lítillega í síðasta mánuði og hefur aukist um 3,6 prósent á síðastliðnum tólf mánuðum sem er mesta hækkun á ársgrundvelli frá 2007.

Samkvæmt upplýsingum frá Datamarket er kaupmátturinn á nákvæmlega sama stað og árinu 2004. Ergo, við getum keypt jafn mikið fyrir launin okkar nú og þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×